138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:57]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég treysti því að sjálfsögðu að þessi gögn verði lögð fram. Hér er um að ræða gögn sem kynningu sem unnin var fyrir íslensku samninganefndina um Icesave að beiðni hennar samkvæmt erindi 11. mars og sá fundur sem um ræðir var haldinn 26. mars. Ég óskaði eftir þessum upplýsingum á fundi fjárlaganefndar 22. desember síðastliðinn og þar var því heitið að þessi gögn yrðu lögð fram. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að við þeirri bón verði orðið og dreg það ekkert í efa, hv. formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, hét því að þetta yrði gert. Ég veit til þess að hann er að vinna í því í dag og ég vænti þess að við fáum þessi gögn sem fyrst í hendur. Ef um einhvern misskilning er að ræða, sem ég tel að sé ekki, verði hann leiðréttur. (Forseti hringir.)