138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:04]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo háttar til að sá munur er á landshlutum að það er örlítið meiri snjór fyrir norðan þannig að það er dýpra á berin þar en hér syðra.

Ég fullyrði að í áliti 3. minni hluta fjárlaganefndar í þessu máli er tæpt á þessum atriðum sem hæstv. utanríkisráðherra — (Gripið fram í: Ekki nægilega.) Ekki nægilega, segir hæstv. (Gripið fram í.) ráðherra. Það kann vel að vera að honum líki ekki hversu afdráttarlaus við erum en ef sá sem hér stendur er að gleyma einhverjum tilteknum atriðum úr þessu áliti (Gripið fram í.) vantar eitthvað upp á berjaminni hæstv. ráðherra, einfaldlega vegna þess að þetta lögfræðiálit segir líka og dregur fram möguleikann á því að ná öðrum samningum við Breta og Hollendinga. (Gripið fram í: Það gerir það ekki neitt.) Það gerir það víst. Í þessu lögfræðiáliti er því ekki hægt að festa sig í einni lausn frekar en annarri. Ef það skortir einhverjar frekari upplýsingar um þetta bjóðum við að sjálfsögðu upp á að afgreiða málið ekki í dag, á morgun eða hinn heldur gefum við okkur rýmri tíma til að ganga úr skugga um þetta vafaatriði. (Forseti hringir.) Ég vænti liðsstyrks hæstv. utanríkisráðherra við það efni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)