138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:07]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vildi að ég gæti svarað hv. þingmanni en ég hef engin svör á takteinum við þessari spurningu. Ég verð því miður að játa að hv. þingmaður, sem ég ber mikla virðingu fyrir, hefur heldur ekki þau svör. Hvort heldur hann kýs að tjá sig með þeim hætti að ég vilji taka séns á því að fara með þetta mál fyrir dómstólana er leikur einn að snúa þessari spurningu við og segja: Vill hv. þingmaður taka þann séns að taka þessari niðurstöðu eins og hún birtist hér? Hann svarar því væntanlega játandi. Með sama hætti get ég alveg svarað hinni spurningunni játandi. Það sem út af stendur er umræða Alþingis um hvað tekur við af samþykktu frumvarpi árið 2016 þegar við förum að greiða af þessum skuldbindingum. Hvernig ætla menn að mæta því ef forsendur hagvaxtar bresta? Hvaða áherslur eru menn með uppi í þeim efnum? Hvernig sjá þeir íslenskt þjóðfélag ganga í gegnum (Forseti hringir.) þau áföll sem af því leiðir? Mér þætti vænt um að fá örlitla umræðu um það.