138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:11]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt sem hefur komið fram í umræðunni að formaður fjárlaganefndar bauð að málið yrði tekið út á Þorláksmessu. Ég bendi hins vegar á að meðferð þessa máls er á ábyrgð meiri hluta í hvert sinn. Við erfiðar ákvarðanir þýðir ekkert fyrir þann sama meiri hluta, hversu vel sem hann leggur sig fram, að benda síðan á minni hlutann og segja: Þetta er allt saman honum að kenna. Ástæðan fyrir því að fjárlaganefndin komst að þessari sameiginlegu niðurstöðu var einföld. Menn ætluðu fjárlaganefndarmönnum ekki að vinna vinnuna sína á aðfangadag og jóladag. Þetta var ekkert flókið. Menn gerðu einfaldlega kröfu um að fá að vera heima hjá fjölskyldunum á aðfangadag jóla. Það var nú grunnurinn að þessari niðurstöðu fjárlaganefndarinnar allrar því ef meiri hlutinn hefði verið svona elskur að lýðræðinu hefði honum verið í lófa lagið að taka málið ekki út fyrr en á Þorláksmessu. Það liggur í hlutarins eðli.