138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:30]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björn Valur Gíslason flutti svo sem kunnuglega ræðu og kom mikið inn á ábyrgð þeirra sem voru hér áður og einkavæddu bankana og talaði um að margir hefðu mært útrásarvíkingana í þessum ræðustól. Í tíð síðustu ríkisstjórnar var hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson bankamálaráðherra og ég þykist vita að hv. þingmaður viti vel að hv. þingmaður, sem var þá starfandi bankamálaráðherra, skrifaði greinar á heimasíðu sína og í blöð þar sem hann mærði útrásarvíkingana. Mig langar til að spyrja hv. þingmann um það. Telur hann að sá ágæti þingmaður hv. hafi axlað þá ábyrgð sem honum ber? Hv. þingmaður kom inn á einkavinavæðinguna hjá þessum ríkisstjórnum, nú hefur þessi kommúnistaríkisstjórn ráðið um 50 manns inn í ráðuneytin án auglýsingar og nú síðast var Jón Sigurðsson skipaður formaður bankaráðs Glitnisbanka, hann var starfandi stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins og varaformaður í Seðlabankanum þegar (Forseti hringir.) hrunið átti sér stað. Telur hv. þingmaður þetta vera eðlileg vinnubrögð?