138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:31]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir andsvarið. Ég tel að löngu sé kominn tími til, rétt eins og hv. þingmaður bendir á, að ræða um ábyrgð stjórnmálamanna í þessu máli, hvort sem það er fyrrverandi ríkisstjórn sem hrökklaðist hér frá völdum í ársbyrjun, eða þeir sem á undan henni gengu. Ég vildi óska þess að þeir sem þar voru á undan reyndu að axla ábyrgð eins og sú ríkisstjórn sem var hér á síðasta ári, í það minnsta annar ríkisstjórnarflokkurinn sem þá var, er að reyna að gera. En sá flokkur er að takast á við þetta mál, er að finna lausn og vill reyna að leiða málið til lykta hér á Alþingi. Það er ekki hægt að segja um fyrri ríkisstjórnarflokka sem hér hafa verið, því miður. Ég vil spyrja þingmanninn á móti: Hvaða ábyrgð telur hann sinn eigin flokk, Sjálfstæðisflokkinn, bera í þessu máli? Er kominn tími til þess að sá flokkur biðjist afsökunar á framgöngu sinni í málinu og axli sína ábyrgð í því? Eða er hann hreinlega yfir það hafinn? (Forseti hringir.)