138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:36]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þótt honum finnist einkennilegt að hlusta á mig tala, get ég ekki sagt það sama um hv. þingmann, mér finnst yfirleitt mjög gaman að hlusta á hann tala og set mig í stellingar ef ég veit af honum í ræðustól, hvort sem um er að ræða bundið máli eða ræðuhöld.

Þetta er ekki pólitískt mál, segir hv. þingmaður. Ég er því ósammála. Þetta er pólitískt mál, vegna þess að á því hvílir pólitísk ábyrgð. Meðan sú pólitíska ábyrgð er ekki gerð upp og á meðan þeir sem bera þá pólitísku ábyrgð axla hana ekki og gera upp þetta mál og fleira í fortíðinni, er það pólitískt og skiptir líka máli fyrir pólitíkina á Íslandi í framtíðinni.

Ég reikna með að þingmaðurinn hv. hafi verið að vísa til þess hvaða efnahagslegi skaði hafi orðið vegna þess að þetta var ekki samþykkt í sumar. Það ætti nú að vera þeim hagfræðingahópi létt verk að reikna út hvað þær tafir sem hafa orðið á málinu frá því í sumar hafa kostað (Forseti hringir.) íslenska þjóð efnahagslega .