138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:08]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst út í sambandi við neyðarlögin. Ég sé ekki samhengi þarna á milli vegna þess að ég tel hvorki minni né meiri líkur á að þau verði felld í dómsmáli hvort það eru Bretar og Hollendingar sem fara þar á fullum krafti vegna þess að það er fyrirséð að það verður látið reyna á þau.

Hæstv. ráðherra kom inn á þetta minnisblað í andsvari sínu sem var undirritað og mig langar að árétta það við hæstv. félagsmálaráðherra vegna þess að minnisblaðið sem var skrifað undir — og það kom fram í svari Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur til utanríkismálanefndar að samningarnir voru núllstilltir. Ég spurði Svavar Gestsson, formann samninganefndarinnar, sérstaklega að því á fundi fjárlaganefndar hvort samninganefndin hefði verið beitt þrýstingi út af þessu minnisblaði. Hann svaraði því bara mjög heiðarlega að það hefði ekki verið gert. Það liggur því alveg klárt fyrir. Mér finnst vera kominn tími til, virðulegur forseti, að menn hætti að tala með þessum hætti. Ég vænti þess og langar að spyrja hæstv. ráðherra: Ekki er hæstv. ráðherra að samþykkja þessa samninga vegna þess að hann telur að þetta minnisblað hafi bundið okkur að einhverju leyti?