138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:09]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að líklegra er að neyðarlögin haldi ekki ef við göngum ekki frá Icesave er sú að í neyðarlögunum felst mismunun. Við komum okkur undan hluta þeirrar mismununar með því að virða lágmarksinnstæðutryggingar alls staðar en það er alveg ljóst að í neyðarlögunum og í yfirlýsingum stjórnvalda frá þeim tíma felst að við tryggjum allar innstæður á Íslandi. Það hefur alltaf legið fyrir. Með því að virða lágmarksinnstæðutryggingarnar tryggjum við þó að við gerum það sem lagalega séð er hægt að krefja okkur um gagnvart öllum jafnt, þ.e. líka innstæðueigendum í öðrum löndum.

Ljóst er af minnisblaði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að þetta minnisblað frá því í október var líka að þvælast fyrir henni og hefur auðvitað verið að þvælast fyrir í samningagerðinni áfram. Það er ekki eins og þessi orð hafi verið að engu hafandi. Auðvitað (Forseti hringir.) var þarna undirritað minnisblað af hálfu samninganefndarmanna Íslands og það (Forseti hringir.) þvældist fyrir íslenskum samningamönnum allan tímann í samningagerðinni.