138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:19]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum hér í ræðustól til þess að munnhöggvast við félagsmálaráðherrann um þetta tiltekna atriði. Þetta er svo skýrt. Það þarf ekkert að eyða fleiri orðum í það þegar utanríkisráðherrann og forsætisráðherrann eru báðir búnir að tjá sig um það að ferlið hafi verið núllstillt með hinum sameiginlegu viðmiðum.

Ég ætla að skilja eftir eina spurningu fyrir ráðherrann. Hún er þessi: Var það á ábyrgð Fjármálaeftirlitsins og þess ráðherra sem fór fyrir þeim málaflokki að setja strangari reglur um viðtöku innlána í útibúum íslenskra banka erlendis? Þetta er eitt af þeim atriðum sem ráðherrann tiltekur hér sem ástæðu fyrir því að við þurfum að ræða málið. Er það sem sagt á ábyrgð þess ráðherra sem ég hef hér tilgreint, og Fjármálaeftirlitsins að setja slíkar reglur?

Svo ætla ég að nota síðustu sekúndurnar til þess að lýsa þeirri skoðun minni að það er algerlega dæmalaust að hlusta hér á ráðherra í ríkisstjórn taka upp allar málsástæður viðsemjenda okkar ítrekað, aftur og aftur, lýsa því meira að segja yfir hér í ræðustól Alþingis að við höfum brotið lög með setningu neyðarlaganna. (Forseti hringir.) Hvað á þessi málflutningur eiginlega að þýða?