138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:27]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég sit í viðskiptanefnd og var framsögumaður á minnihlutaáliti sem óskað var eftir frá fjárlaganefnd varðandi tvo þætti. Þess var farið á leit við viðskiptanefnd að hún mundi annars vegar leita eftir upplýsingum um hversu miklar fjárskuldbindingar fælust í Icesave-samningunum og hins vegar var óskað eftir upplýsingum frá skilanefnd Landsbanka Íslands um fjárflæði úr þrotabúinu. Þetta voru tvær mjög skýrar beiðnir sem komu fram, teknar nákvæmlega orð fyrir orð upp úr samkomulaginu sem gert var á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um hvernig ætti að vinna málið á milli 2. og 3. umræðu. Þrátt fyrir það verð ég í þessu áliti, sem ég og Margrét Tryggvadóttir skrifum undir, að gera mjög harðar og miklar athugasemdir við það hvernig þetta var unnið innan viðskiptanefndar.

Það gekk svo sem ágætlega að fá skilanefnd Landsbanka Íslands til að koma á fund nefndarinnar. Þeir fóru í gegnum nákvæmlega hversu miklar eignir þeir áætla að séu núna inni í þrotabúinu og hvernig fjárflæðið verði þarna á árunum 2009–2013 og síðan þar á eftir. Hins vegar virtist ekki vera neinn vilji frá framkvæmdarvaldinu til að nota þessar tölur til þess að áætla hversu miklar fjárskuldbindingar felast raunverulega í Icesave-samningunum. Meirihlutaálitið var afgreitt út úr viðskiptanefnd gegn mótmælum minni hlutans þar sem við bentum á að ekki væri búið að uppfylla samkomulagið. Það var ekki fyrr en minni hlutinn hafði komið á framfæri mótmælum við bæði forseta Alþingis og alla þingflokksformenn að fjármálaráðuneytið varð við ósk um að uppfæra áætlanir um fjárskuldbindingar vegna Icesave og útreikninga um greiðsluflæði ríkissjóðs á næstu árum miðað við þessar nýju upplýsingar. Þessi gögn bárust hins vegar fjárlaganefnd og viðskiptanefnd ekki fyrr en 22. desember og mér sýndist miðað við tímasetninguna á fundi fjárlaganefndar að þessi gögn hefðu alla vega borist á meðan á fundi stóð eða eftir að fundi lauk þegar meiri hluti fjárlaganefndar var að afgreiða málið út. Það virtist því sem fulltrúar meiri hlutans í fjárlaganefnd hefðu mjög takmarkaðan áhuga á því að sjá nýjar og uppfærðar upplýsingar um hverjar áætlaðar greiðslur af Icesave væru miðað við 88% heimtur eigna, sem er samt eitt af því sem menn hafa fagnað mikið, og líka raunar að sjá heildarmyndina. Hér hafa menn talað mjög fjálglega um að Icesave sé forsendan fyrir því að við getum staðið í skilum við aðrar skuldbindingar. Ég hefði talið að þar með hefðu menn áhuga á að sjá nákvæmlega hverjar þær skuldbindingar væru og hvernig þær mundu dreifast niður á næstu ár og út frá því meta hvort einhverjar líkur væru á því að Ísland gæti staðið undir þessum skuldbindingum eða ekki.

Einnig kom fram hjá viðskiptanefnd að það er gífurleg óvissa um hvenær byrjað verður að borga út úr þrotabúinu. Þótt núna sé áætlað að einhvers staðar í kringum 2.000 milljónir evra skili sér út úr þrotabúinu miðað við dagslokagengi 6. nóvember 2009 er alls óvíst hvenær nákvæmlega verður byrjað að borga þessa fjármuni út úr þrotabúinu. Hjá fulltrúum skilanefndarinnar kom fram, sem var að vísu ítrekun á því sem þeir höfðu þegar sagt í sumar en virtist ekki alveg hafa skilað sér til alla vega hluta nefndarmanna innan fjárlaganefndar og ekki heldur til lögfræðispekinga sem leitað hafði verið umsagnar frá hjá Logos lögfræðistofu, að það er mikill ágreiningur á milli kröfuhafa búsins. Sá ágreiningur byggist fyrst og fremst á þeirri staðreynd að þeir sem eru með almennar kröfur sjá fram á að fá ekkert greitt frá gamla Landsbankanum. Talið er að það muni taka eitt og hálft til tvö ár að fá niðurstöðu dómstóla um þessi ágreiningsefni sem þýðir einfaldlega að íslenskir skattgreiðendur munu borga vexti af öllum höfuðstól þessara tveggja lána í a.m.k. tvö til þrjú ár. Vextir eru ekki forgangskröfur. Vextir eru ekki almennar kröfur. Vextir eru svokallaðar eftirstæðar kröfur. Þar sem geysilegur ágreiningur er um alla þessa fjármuni, það er ljóst að ekki mun fást nema brotabrot upp í almennar kröfur og við erum að tala um vonandi 88% heimtur af forgangskröfum, held ég að það sé algjörlega á hreinu að ekkert mun fást upp í eftirstæðar kröfur.

Það er líka mikil óvissa um endurheimtur eigna. Núna áætlum við að verðmæti þrotabúsins sé einhvers staðar í kringum 1.164 milljarða íslenskra króna en þessar tölur eru frá 30. september 2009. Þótt farið hafi verið í miklar niðurfærslur á þessum eignum getur eignasafnið rýrnað enn frekar, eins og það hafði svo sem gert þarna frá þeim tölum sem við fengum áður og svo til 30. september. Það verður að gæta mikillar varúðar við umsýslu og vörslu þess. Það er því mikil ábyrgð sem hvílir á slitastjórn Landsbankans.

Það hefur líka kannski ekki komið nógu skýrt fram að ástæðan fyrir því að við teljum okkur núna vera að fá einhvers staðar í kringum 88% heimtur út úr þrotabúinu fyrir forgangskröfur — munum að þarna erum við að tala um forgangskröfur — er vegna skuldabréfsins sem er gefið út frá Nýja Landsbankanum til gamla Landsbankans. Þetta skuldabréf er áætlað standa í um 332 millj. kr., sem er álíka upphæð og menn vonast til að við munum standa frammi fyrir að greiða þegar kemur að því að borga Icesave. Við erum því að tala um gífurlega hátt skuldabréf, upphæðin er alveg geysilega há. Afborgunarferill bréfsins fellur að einhverju leyti saman við greiðslu ríkisins af Icesave-skuldbindingunni, samið var á milli gamla og nýja bankans um að afborganir tækju þarna tillit til áætlana um greiðslujöfnun landsins gagnvart útlöndum á næstu árum. Þetta er vegna þess að þarna mun Nýi Landsbankinn keppa um sama gjaldeyrinn og íslenska ríkið til þess að geta borgað sínar erlendu skuldbindingar.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur bent á mikla áhættu sem fólgin er í ágreiningi við kröfuhafa og endurheimtum eigna bankanna. Þeir hafa talað um þetta sem tvo af stærstu áhættuþáttum sem þeir sjá fyrir varðandi framtíð efnahagsáætlunar sjóðsins og Íslands og benda á að þótt stjórnvöld hafi náð samkomulagi við slitastjórnina séu engar líkur á því að ná samkomulagi við kröfuhafa um hvernig verði gengið frá uppgjöri þarna á milli. Íslenska ríkið og þeir sem reka Landsbankann eru að vissu leyti komnir í mjög einkennilega aðstöðu vegna þess að góð afkoma og rekstur Nýja Landsbankans mun skipta mjög miklu máli fyrir íslenska ríkið en á móti getur verið að allt muni ganga út á að kreista íslensk fyrirtæki og heimili þar á móti til þess að höfuðstóllinn verði sem allra lægstur. Meira að segja er inni í samkomulaginu sem var gert á milli gamla og nýja bankans að settir eru ákveðnir bónusar til þess að tryggja að verðmætin verði sem mest. Þarna eru raunar miklir hvatar fyrir þá sem stjórna Nýja Landsbankanum til þess að ganga mjög hart fram í innheimtu á þessum lánasöfnum og því er spurning hvort enn á ný verði gengið of langt í að rukka inn þessar skuldir hjá íslenskum heimilum og fyrirtækjum.

Það er líka mjög sláandi í þessum gögnum sem maður fékk loksins frá fjármálaráðuneytinu — og ég vil samt þakka kærlega fyrir að þessi gögn skyldu á endanum fást en eins og ég nefndi hérna áðan virtist það ekki ætla að ganga þegar málið var afgreitt út úr nefndinni — að ástæða er til að hafa miklar áhyggjur af skuldastöðu íslenska ríkisins. Mér hefur fundist mjög sorglegt að horfa upp á menn gera lítið úr þessum gífurlegu skuldum sem bæði íslenska þjóðarbúið og íslenska ríkið sjálft hafa tekið á sig. Samkvæmt þeim tölum sem þarna komu fram eru heildargreiðslur íslenska ríkisins vegna eldri lána og vaxtagreiðslna á árunum 2011–2015 áætlaðar um 4.063 millj. evra, sem eru 756,2 milljarðar kr. miðað við dagslokagengi 6. nóvember 2009. Eins og ég hef skilið það er þessi upphæð hærri en allt það fjármagn sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og önnur lönd hafa lofað að lána Íslandi sem hluta af efnahagsáætlun sjóðsins og ætlað er að styrkja varagjaldeyrisforðann.

Í þeim gögnum eða upplýsingum sem fylgdu með þessum útreikningum var sagt að það lægi ljóst fyrir að nauðsynlegt væri að endurfjármagna og lengja í þeim lánum sem koma til greiðslu á þessu tímabili. Þannig verður ekki séð að ríkissjóður verði í aðstöðu til að safna sjóðum til að standa undir greiðslum af Icesave. Á tímabilinu 2016–2024 eru heildargreiðslur ríkissjóðs áætlaðar 4.290 millj. evra og þar af er Icesave-skuldbindingin um 2.012 millj. evra eða um 47% af heildargreiðslum ríkissjóðs á þessu tímabili. Þarna er ekki tekið tillit til þess að miðað við að það þurfi að endurfjármagna og lengja í lánum sem koma til greiðslu 2011–2015 færast gjalddagar þeirra lána til baka. Þá verður enn þá þyngri byrði á íslenska ríkinu þegar kemur að því að borga Icesave en sett er upp núna í þeim áætlunum sem hafa verið lagðar fyrir viðskiptanefnd og fjárlaganefnd. Það liggur heldur alls ekki fyrir, þótt menn telji að það þurfi að fara í þessa endurfjármögnun, hvert eigi að sækja hana og á hvaða kjörum hún muni bjóðast. Til samanburðar má benda á Litháen sem gaf nýlega út skuldabréf á alþjóðlegum mörkuðum og greiðir nú um 8% í vexti af þeirri lántöku eða um helmingi hærri vexti en bjóðast nú í gegnum samstarf við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Norðurlöndin og Pólland.

Í ljósi alls þessa verð ég að lýsa yfir gífurlegum áhyggjum af greiðslugetu ríkisins á næstu árum og áratugum, sérstaklega í ljósi þess að eitt af því sem menn hafa byggt á drauma sína um að geta staðið í skilum með allar þessar skuldbindingar er hinn svokallaði viðskiptajöfnuður. Nú langar mig til þess að vitna í grein eftir Örvar Guðna Arnarson, með leyfi forseta. Hann segir:

„Í júlí flautaði Seðlabanki Íslands til leiks í þrælskemmtilegum talnaleik milli Seðlabankans og raunveruleikans. Þeir spáðu fyrir um útflutningsjöfnuð hagkerfisins næstu 10 árin. Í dag er staðan 1-0 fyrir raunhagkerfið. Bankinn spáði 154 milljörðum í útflutningsjöfnuð fyrir 2009, hins vegar stefnir jöfnuðurinn í 100 milljarða, 50% skekkja þrátt fyrir að sex mánuðir voru liðnir af árinu. Á móti kemur að níu ár eru eftir af leiknum, þorir einhver að veðja á Seðlabankann?“

Allar kenningar segja til um að þegar áfallið skelli á dragist neyslan einmitt saman og fólk hætti að kaupa í jafnmiklum mæli og áður innfluttar vörur en meira að segja í ár þegar maður mundi telja að Seðlabankinn hefði bestu forsendurnar til að spá um hver viðskiptajöfnuðurinn verði raunverulega er 50% skekkja í útreikningunum hjá þeim. Hvar ætlum við að fá afganginn? Nú erum við komin að lokum ársins og við náum honum varla inn núna á síðustu tveimur virkum dögum ársins. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ekki staðið sig mikið betur en Seðlabankinn. Þeir spáðu 125 milljörðum þótt níu mánuðir væru liðnir þegar þeir skiluðu inn sínum tölum. Þeir ofmátu viðskiptajöfnuðinn um 40 milljarða, eða 55%, og vanmátu þjónustujöfnuð um 18 milljarða eða 60%. Ég get ekki annað en tekið undir ályktun höfundar um að þetta sé raunar ömurleg frammistaða hjá Washington og þeir ættu að geta staðið sig töluvert betur í að reikna en þetta.

Nánast eina leiðin sem maður sér til þess að hægt sé að standa undir þessum gífurlega afgangi af viðskiptajöfnuði sem er spáð er áframhaldandi veiking krónunnar og við vitum svo sem hvað það þýðir. Það þýðir að við horfum upp á ömurleg lífskjör sem fólk mun búa við hér og við getum ekki haldið fólkinu okkar bundnu við landið, það getur pakkað saman og farið. Þess vegna hvet ég alla þingmenn, sérstaklega þá sem hyggjast segja já við þessu máli, til að velta fyrir sér sinni ábyrgð, velta fyrir sér ábyrgðinni sem fylgir því að kvitta undir lánasamning sem er hvergi búinn að sýna fram á að við munum nokkurn tímann geta staðið í skilum nema við göngum gjörsamlega (Forseti hringir.) frá lífskjörum íslensks almennings til þess að geta greitt Bretum og Hollendingum þessar (Forseti hringir.) krónur og aura og evrur og pund sín.