138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er mjög áhugavert að fylgjast með umræðunni, sérstaklega í ljósi þess að maður heyrir hæstv. ráðherra tala hér með meiri sannfæringu um málið en Hollendingar og Bretar mundu nokkurn tímann gera. Þeir koma með miklar og merkilegar ræður sem ganga út á það að við þurfum að gangast undir þennan opna tékka, þessa ríkisábyrgð, og eru þá tala fyrir frumvarpi til laga, þskj. 76, og hvað stendur þar, virðulegi forseti? Svo ég lesi það bara upp stendur þar á forsíðu, með leyfi forseta:

„Ekkert í lögum þessum felur í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi.“

Bara ekkert, nákvæmlega ekki neitt, virðulegi forseti. Ég velti því fyrir mér hvort þeir hafi kannski dottið inn í vitlaust mál. Ég lenti í því um daginn, ég var með atkvæðaskýringu í allt öðru máli en ég hélt ég væri í, það getur komið fyrir besta fólk. Kannski eru hæstv. ráðherrar bara villtir í málinu. Kannski er hæstv. utanríkisráðherra að tala í einhverju allt öðru máli en því sem hér er til umfjöllunar. (Gripið fram í.) Því að hér segir skýrt, virðulegi forseti að ekkert, nákvæmlega ekki neitt, í lögum þessum feli í sér viðurkenningu á því að íslenska ríkinu hafi borið skylda til að ábyrgjast greiðslu lágmarkstryggingar til innstæðueigenda í útibúum Landsbanka Íslands hf. í Bretlandi og Hollandi. Hvorki meira né minna.

Enda er það svo að allir aðilar, allir þeir sérfræðingar sem að þessu máli hafa komið eru sammála um að hér sé vægast sagt, svo ekki sé dýpra í árinni tekið, um mjög mikil vafaatriði að ræða í þessu máli. Hvort sem hv. þingmönnum líkar það betur eða verr, ég er einkum að vísa í hv. þingmenn Samfylkingarinnar sem eru sérstakir talsmenn Evrópusambandsins á Alþingi Íslendinga og svo grunar mann nokkra hv. þingmenn VG um að fljóta þar með, þessir hv. þingmenn eiga mjög erfitt með að sætta sig við þá staðreynd að hér er um meingallaða tilskipun Evrópusambandsins að ræða. Það er grunnurinn að þessu öllu saman. Hún er svo gölluð að það er algjör sátt um það innan Evrópusambandsins að endurskoða hana. Það er verið að því núna, vegna þess að menn sáu að það sem lagt var af stað með í þessari tilskipun gekk ekki eftir. Það er algjörlega ljóst að hún er ekki gerð fyrir kerfishrun.

Við fengum þær upplýsingar, virðulegi forseti, þegar við fjölluðum um málið í hv. viðskiptanefnd þar sem sérfræðingar viðskiptaráðuneytisins komu og upplýstu okkur um að það væri mjög misjafnt á milli landa hvernig þessi tilskipun væri framkvæmd. Þeir upplýstu líka að ekki væri gert ráð fyrir því í neinu landi innan Evrópska efnahagssvæðisins, að það væri bara vitað að viðkomandi sjóður mundi ekki einu sinni standa undir því ef stærsti banki viðkomandi lands mundi falla, hann gæti aldrei staðið undir því ef einn stór banki í viðkomandi landi mundi falla.

Við horfðum á fjármálakreppuna sem hér kom. Við munum eftir því fárviðri sem varð hérna síðasta haust. Þá varð martröð okkar og þeirra aðila sem sáu þetta fyrir, sem voru nokkrir innan Evrópska efnahagssvæðisins sem véluðu um þessi mál í Evrópusambandinu, að veruleika. Þá lögðust þessi stórveldi Evrópusambandsins og Evrópusambandið á litla Ísland og reyndu að setja landið í þann farveg að ekki yrði hægt að segja að þetta kerfi væri ónýtt, það mundi leiða af sér að almenningur um allt Evrópska efnahagssvæðið tæki út innstæður sínar.

Virðulegi forseti. Þetta er eitthvað sem allir vissu. Þessi lönd voru á þeim tíma og ekki að ástæðulausu hrædd um að gert yrði áhlaup á bankakerfi þeirra. Sú staða er ekki uppi núna. Hún var heldur ekki uppi í vor þegar hæstv. ríkisstjórn undir forustu hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra gengu frá samningi á örskotsstundu þvert á fyrri yfirlýsingar. Við skulum ekki gleyma því að úr þessum stól sagði hæstv. fjármálaráðherra á miðvikudegi, þegar hv. þm. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson spurði hann hvað væri að frétta af þessu máli, eitthvað á þá leið að það væri mjög lítið að gerast og ekki yrði gengið neitt frá þessu á næstunni eða næstu vikum. Ég held að tveim dögum seinna hafi verið búið að skrifa undir samkomulag og þá komu forustumenn hæstv. ríkisstjórnar fram og sögðu: Þetta er svo gott samkomulag að það er lykilatriði að klára þetta mál hratt og vel. Þessi aðilar sögðu líka, fulltrúar þeirra í nefndum sögðu að þingmenn ættu ekki að fá að sjá samninginn, það ætti bara að klára hann. Og veit ég það vel vegna þess að ég var í viðkomandi nefnd og spurði fulltrúa hæstv. ríkisstjórnar þessara spurninga og fékk þau skýru svör að við ættum ekki að fá að sjá það. Þegar eftir því var gengið var sagt að hugsanlega gæti Ríkisendurskoðun túlkað samninginn ofan í þingmenn.

Það var líka sagt, virðulegi forseti, af því hér tala menn sig hása og eru reiðir, að það mætti alls ekki breyta þessu, alls ekki. Þetta væri góður samningur, þetta var búið og gert. (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Eftir margra vikna vinnu var þessu breytt og settir voru fyrirvarar. Og hvað sögðu forsvarsmenn hæstv. ríkisstjórnar eftir að þingið hafði sameinast um að setja mjög skýra, bæði lagalega og efnahagslega fyrirvara? Þeir sögðu að þetta mundi allt rúmast allt innan samkomulagsins, þannig að þetta væri eitthvað sem þeir bæru ekki neinn kvíða fyrir að útskýra fyrir viðsemjendum okkar og loka málinu. Hér komu forustumenn í þessu máli, hv. þingmenn, hæstv. ráðherrar og sungu þennan söng, fóru yfir hve það væri mikilvægt að Alþingi Íslendinga hefði talað og það þyrfti ekkert meira að gera í þessu máli en að útskýra þetta fyrir viðsemjendum okkar.

Nokkrum vikum seinna koma sömu aðilar aftur, þetta er partur þrjú í málinu, og segja, virðulegi forseti, að fyrirvararnir séu allir á þeim stað sem þeir voru á þegar við gengum frá þessu. Jafnvel gengu menn svo langt eða létu að því liggja að nýja samkomulagið, sem enginn vissi að farið hefði verið út í að gera, væri betra en það samkomulag eða þeir fyrirvarar sem lagt var upp með og samþykkt á Alþingi Íslendinga síðastliðið haust, í lok ágúst ef ég man rétt. En nú held ég að enginn hv. þingmaður innan stjórnarliðsins þori að halda því fram að fyrirvararnir séu inni, ég held að enginn þori að gera það. Á nokkrum dögum hafa menn bakkað út úr því.

Ástæðan fyrir því, virðulegi forseti, að ég rifja þetta upp nú er sú að það er mjög hollt, hlutirnir ganga mjög hratt fyrir sig og það er hollt að minnast þess að forustumenn ríkisstjórnarinnar sögðu fyrir nokkrum mánuðum, nánar tiltekið í júní, að engu mætti breyta, við værum með góðan samning. Í ágúst sögðu þeir þegar búið var að setja mjög stranga fyrirvara að þeir séu innan samkomulagsins og þeir hafi engar áhyggjur af því að útskýra það fyrir viðsemjendum okkar, þingið hafi talað og það skipti máli. Núna vilja þeir að við klárum þetta mál þegar þeir eru búnir að viðurkenna að öllum fyrirvörunum sem voru þarna inni er meira og minna búið að glutra niður og eru ekki lengur til staðar, núna segja þeir að við þurfum að klára þetta vegna þess að það sé svo mikilvægt og gott ef ekki út af endurreisninni.

Það var ekkert að marka þá í júní, það var ekkert að marka þá í ágúst, og það var ekkert að marka þá þegar þeir komu hér og kynntu þetta nýja samkomulag. En nú segja þeir, virðulegi forseti: Við þurfum að klára þetta, það er svo mikilvægt út af endurreisninni. Er einhver ástæða til að treysta þeim núna frekar en í júní, ágúst eða fyrir nokkrum vikum síðan?

Það er auðvitað ekki svo, menn hafa því miður ekki komið til dyranna eins og þeir eru klæddir í þessu máli. Menn hafa því miður ekki sagt satt í þessu máli og það er eitt af stóru vandamálunum.

Förum aðeins yfir það hvort þetta er leið til að endurreisa efnahagslífið. Ég er hér með minnisblað, dagsett 12.12.2009 og yfirfarið 21. desember 2009, sent af Friðriki Má Baldurssyni. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„Fram undan eru miklar greiðslur ríkissjóðs og aðila með ríkisábyrgð, sérstaklega árin 2011 og 2012.“ — Og nú kemur setning sem mér finnst athyglisverð: — „Núverandi gjaldeyrisforði kann að duga til að standa skil á þessum greiðslum en það virðist þó háð verulegri óvissu.“ — Ég ætla að lesa þetta aftur: „Núverandi gjaldeyrisforði kann að duga til að standa skil á þessum greiðslum en það virðist þó háð verulegri óvissu.“ — Það er möguleiki að gjaldeyrisforðinn dugi en það er þó mjög óvíst, hvorki meira né minna en allur gjaldeyrisforðinn. Síðan segir: „Komi ekki til annarrar fjármögnunar virðast því líkur á greiðslufalli ríkis, fyrirtækja með ríkisábyrgð eða sveitarfélaga eftir 2–3 ár og er þá ekki reiknað með greiðsluþörf vegna nýrra fjárfestinga. Í þessari stöðu felst mikil áhætta sem brýnt er að leysa úr með því að tryggja fjármögnun greiðslna þessara opinberu aðila með góðum fyrirvara.“

Virðulegi forseti. Hér er verið að tala um hvorki meira né minna en að líkur séu á greiðslufalli ríkis, fyrirtækja með ríkisábyrgð og sveitarfélaga og þá er ekki gert ráð fyrir greiðsluþörf vegna nýrra fjárfestinga. Hverjar eru nýjar fjárfestingar? — Hér kemur fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra, hann þekkir fjárfestingar á því sviði. Það er ekki gert ráð fyrir þeim hér.

Virðulegi forseti. Við munum áfram vilja vera með bestu tækin þegar kemur að heilbrigðisþjónustu landsmanna. Og það er veruleg hætta á greiðslufalli ríkis, fyrirtækja með ríkisábyrgð og sveitarfélaga og þá er ekki gert ráð fyrir nýjum fjárfestingum. Ég er ekki að tala um neitt bruðl, heldur bara fjárfestingu til að halda uppi því þjóðfélagi sem við erum í dag, sérstaklega velferðarþjónustunni.

Þetta kemur frá sérfræðingum sem tjá sig fyrir fjárlaganefnd. Þrátt fyrir þessar upplýsingar og margar aðrar koma menn fram og segja að það sé nauðsynlegt að klára þetta fyrir endurreisnina.

Virðulegi forseti. Allir vita að þessi leið er ekki fær. Og ef maður ræðir við hv. þingmenn einslega eða þá aðila sem styðja ríkisstjórnina í þessu máli telja menn sér trú um að það þurfi ekki að greiða reikninginn. Það þurfi bara að skrifa undir og síðan muni menn einhvern veginn að vinna sig út úr þessu. Þetta eru blekkingar. Það liggur alveg fyrir að ef við skrifum undir þetta, þ.e. ef við göngum frá þessu á Alþingi Íslendinga, munum við þurfa að borga. Það verður alltaf hægt að finna fátækara land en Ísland. Við getum ekki borið það fyrir okkur að við séum svo fátæk að við getum ekki greitt þetta. Það verður örugglega alltaf hægt að finna í Evrópu, ég tala ekki um annars staðar, fátækara land og fólk sem hefur það verra.

Virðulegi forseti. Þetta eru auðvitað stærsta mál sem við sem hér erum inni, hv. þingmenn sem eru kosnir til trúnaðarstarfa, munum nokkurn tímann taka á. Og það er ábyrgðarhluti að telja sér trú um að ekki þurfi að greiða þennan reikning þegar búið er að samþykkja þetta á þinginu. En ég fullyrði, virðulegi forseti, að það er nokkuð sem stjórnarliðar, sem ætla að styðja málið, eru búnir að telja sjálfum sér trú um, (Forseti hringir.) og ég fullyrði að það er ein dýrasta sjálfsblekking, ekki ein það er dýrasta (Forseti hringir.) sjálfsblekking sem íslensk þjóð hefur nokkurn tímann séð.