138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:01]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður talar um dýrustu sjálfsblekkingar sögunnar og ábyrgðarhluta og það er ekki laust við að undir ræðu hv. þingmanns velti maður fyrir sér ábyrgð og hvernig menn skilgreini hana og hvenær reikningar falla. Ástæðan til þess að ég velti því fyrir mér er að hv. þingmaður er sem kunnugt er gamall baráttumaður fyrir einkavæðingu bankanna og hefur barist fyrir þeirri hugsjón sinni af eldmóð sem hefur nú lyktað með sjötta stærsta gjaldþroti veraldarsögunnar og þeim gríðarlegu reikningum sem við stöndum frammi fyrir. Það gerðist þegar hv. þingmaður stóð að ríkisstjórn, ásamt mér og félögum mínum í Samfylkingunni, og sat sem ráðherra í þeirri ríkisstjórn þegar mest allt af þessum skuldbindingum var að vaxa, þegar innlánsreikningarnir í Hollandi voru opnaðir, eftir að Seðlabankanum var kunnugt um hina þröngu og hættulegu stöðu, eftir að Gordon Brown hafði varað við þeirri stöðu sem við vorum í. Ég hlýt þess vegna að spyrja hv. þingmann hvernig hann finnur til ábyrgðar sinnar í málinu vegna þess að í málinu áttu auðvitað í hlut hundruð þúsunda sparifjáreigenda, fólk og fyrirtæki, ekki bara á Íslandi heldur og í þeim löndum sem við erum að tala um. Fyrst hann er ekki tilbúinn til að ganga til samninga, þeirra hagstæðustu sem nást gátu, um greiðslu þessara skuldbindinga, hvað er það þá sem hv. þingmaður vill? Vill hann bara segja nei, við berum enga ábyrgð, sækið okkur fyrir dóm? Er það raunverulega hugmynd hv. þingmanns um það að leiða þessi hörmulegu mál til lykta?