138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:03]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir prýðilegt andsvar, það er gott þegar stjórnarliðar eru tilbúnir til að skiptast á skoðunum um þetta mál. Ég held að hann hafi komið hér inn á ágætispunkta sem skipta máli í umræðunni. Hér er mikið talað um einkavæðingu bankanna. Því miður var það þannig að þeir bankar sem stundum er talað um að séu í félagslegri eign komu heldur ekki vel frá þessu og er ég t.d. að vísa í sparisjóðina. Því miður er það líka þannig að það er sama hvaða leið var farin varðandi einkavæðingu bankanna, þeir virtust allir fara sömu leið. Við gerðum mistök á sínum tíma með því að taka ekki á hlutum eins og krosseignatengslum og öðru slíku. Við gerðum líka mistök varðandi peningamálastefnu. Við gerðum sömuleiðis mistök, og við erum alltaf að gera þau mistök og erum búin að gera þau hvað eftir annað núna bara frá því að nýtt þing kom saman, við erum að ganga að einhverjum Evróputilskipunum algjörlega með bundið fyrir augun og við vinnum það ekki almennilega. Við erum ekkert að læra af því, ekki neitt.

Varðandi ábyrgð aðila. Við höfðum sömuleiðis ofurtrú á eftirlitsstofnunum. Við tókum þetta upp frá Evrópusambandinu. Við erum með fjármálaeftirlit, það er ekki íslensk hugmynd. Við töldum að þetta væri bara allt í lagi, þarna væri fjármálaeftirlit og aðrar eftirlitsstofnanir sem mundu sjá til þess að þessir hlutir væru í lagi.

Þetta voru dýr mistök svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Það voru ekki bara við Íslendingar sem gerðum þetta, en við tókum þetta upp og erum alltaf að taka eitthvað frá Evrópusambandinu og ég er ekkert að hallmæla því, ég er bara að segja að við eigum að vinna þessa vinnu betur.

Hvað við eigum að gera? Menn sögðu hér, forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar, í fullri alvöru, að það að hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra hafi sagt af sér hafi hjálpað í málinu til að ná betri niðurstöðu. Við verðum að sýna samstöðu í þessu máli, auðvitað þurfum við að semja við þessa aðila en við eigum að segja, benda réttilega á að þessi leið gengur ekki, við þurfum að setjast niður aftur og þar verða allir flokkar að koma að. Það eru stærstu mistökin í málinu að við stöndum ekki saman gegn viðsemjendum okkar. Við erum alltaf að takast á hér innan húss. Það er vont.