138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Í þessari umræðu hafa fallið ýmis stór orð samkvæmt hefðinni og önnur stór sett á blað. Ég hef svolítið velt því fyrir mér hvernig þegar frá líður þátttakendur þessarar umræðu og/eða aðrir sem munu rýna hana, muni upplifa hana þegar frá líður. Ég hef sjálfur tekið þátt í umræðum um stór mál þar sem menn hafa lent í því, sem er viss ógæfa í sjálfu sér, að tala sig í sundur og jafnvel segja ýmislegt sem hefði mátt vera ósagt. Hvernig sem það nú allt fer draga menn hvorki töluð orð hér úr ræðustóli né skrifleg gögn til baka og þess vegna verð ég að segja, virðulegur forseti, að mig undrar t.d. að sjá hér nefndarálit 3. minni hluta, hvers framsögumaður er sá ágæti þingmaður og félagi minn Kristján Þór Júlíusson, sem mun vera 4. þm. Norðausturkjördæmis, þar sem eru staðhæfingar strax í inngangi sem fást alls ekki staðist þegar einfaldlega er horft á þær í ljósi skjalfestra gagna. Það segir t.d. þarna „vaxtakjör samkvæmt samningunum sem frumvarpið lýtur að eru með öllu óásættanleg og mun verri en nú þekkist á lánsfjármörkuðum í sambærilegum samningum“. Þessi staðhæfing fær ekki staðist. Allar viðurkenndar aðferðir til að bera saman breytilega og fasta vexti á lánum til tiltekins tíma færa okkur heim sanninn um það að þessi lánskjör eru hagstæð miðað við það sem í boði er. Þetta eru hagstæðari lánskjör á viðurkennda mælikvarða en bæði lánin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og gjaldeyrislánin frá Norðurlöndunum, þetta eru hagstæðari lánskjör en ríkjum Parísarklúbbsins bjóðast í sambærilegum eða hliðstæðum tilvikum.

Það er sömuleiðis sagt hér að efnahagslegir fyrirvarar sem Alþingi samþykkti 20. ágúst sl. séu að engu orðnir. Að engu orðnir. Hvernig er hægt að halda slíku fram þegar þeir eru felldir inn í viðaukasamningana með þeirri einu breytingu sem efnisleg áhrif hefur að vextir skulu alltaf að lágmarki greiddir? Því er haldið fram að lagalegir fyrirvarar sem Alþingi samþykkti 28. ágúst séu að engu orðnir. Annar þeirra er felldur inn í viðaukasamninginn, hinn er í 2. gr. frumvarpsins. (Gripið fram í.)

Nú er það svo, virðulegi forseti, að ríkissjóður hefur því miður orðið að takast á hendur, skuldsetja sig eða veita ábyrgðir vegna margvíslegra skakkafalla sem orðið hafa í íslensku efnahagslífi. Þar er ekki um val að ræða. Við getum ekki því miður annað en horfst í augu við tjónið sem varð þegar Seðlabankinn varð gjaldþrota þegar bankarnir féllu. Við verðum að horfast í augu við það að afkoma ríkissjóðs hefur snúist úr afgangi yfir í gríðarlegan halla og sá halli mun vara í nokkur ár, fer þó minnkandi. Þessar byrðar verðum við að axla og við eigum ekki val um þær.

Við eigum heldur ekki val um það að endurfjármagna bankakerfið og koma því aftur á fót. Slíka þjónustu verðum við að hafa í landinu. Sem betur fer hefur þar tekist þannig til að ríkissjóður mun þurfa að binda um 250 milljörðum kr. lægri fjárhæð í það verkefni en upphaflega var áætlað og munar um minna. Síðan er það Icesave-ábyrgðin eða skuldbindingin. Hún mun ekki hverfa, hún mun ekki yfirgefa okkur, hún mun ekki gleymast, hún mun ekki gufa upp. Við þurfum með einhverjum hætti, nákvæmlega eins og okkar ráðamönnum varð ljóst síðastliðið haust, að komast frá og ganga frá því máli.

Í svona tilvikum er ekki hægt að gera það sem stundum er kallað fyrir austan Egilsstaðasamþykkt. Við getum ekki komið saman til fundar og ákveðið það, eins og menn töldu sig geta þar, að ríkissjóður skyldi vera skuldlaus því að skuldirnar eru þarna samt, jafnvel þó að menn geri slíkar samþykktir. Við verðum að nálgast þetta af raunsæi og horfast í augu við veruleikann eins og hann er. Í tilviki Icesave er þetta þannig að um það hefur samist að ríkissjóður veiti ábyrgð fyrir eftirstöðvum lána sem Bretar og Hollendingar veita vegna þess að þeir gerðu upp við innstæðueigendur í samráði við íslensk stjórnvöld og með samþykki þeirra síðastliðið haust, það liggur fyrir skjalfest, og eignir búsins duga ekki til að mæta að fullu höfuðstólnum og ekki vaxtagreiðslum. Þannig að ríkið stendur þá ábyrgt fyrir því sem út af stendur þegar endurgreiðslutími lánsins hefst 2016.

Umtalsverðar eignir eru sem betur fer í búinu og nú er metið svo að það sé líklegt að þetta verði um 90% af forgangskröfum, jafnvel meira ef vel tekst til við að leysa tiltekin óleyst vandamál sem búið er að kljást við, t.d. í Lúxemborg. Þegar eru miklar eignir komnar inn á reikning búsins, um 180 milljarðar í lok þessa árs og um 120 milljarðar a.m.k. bætast við á næsta ári. Um leið og hægt verður að greiða út úr búinu fer því rúmur helmingur þess sem safnast hefur upp til þess að greiða niður höfuðstólinn á Icesave-lánunum, þá lækka tölurnar strax. Þess vegna eru framreikningar af því tagi sem hér hafa stundum heyrst um gríðarlegar fjárhæðir í sjö ár óháð því hvernig höfuðstóllinn lækkar um leið og greiðslur hefjast úr búinu, auðvitað algerlega óraunhæfar út í loftið sem betur fer.

Stjórnvöldum var mikill vandi á höndum síðastliðið haust og það hef ég svo sannarlega viðurkennt þótt ég hafi gagnrýnt ýmislegt sem var aðhafst, en það er hægara um að tala en í að komast og úr að ráða. Ég held við hljótum öll að viðurkenna að íslenskum stjórnvöldum var gríðarlegur vandi á höndum hér síðastliðið haust. (Gripið fram í: Nú?) Hefur það einhvern tímann verið dregið í efa, hv. þingmaður, sem skemmtir þér þarna úti í horni? Nei, það er alveg ljóst og stjórnvöld þess tíma, t.d. þáverandi hæstv. forsætisráðherra, voru mjög hreinskilin hvað það varðar þegar hann viðurkenndi þær erfiðu aðstæður sem Ísland varð að játa sig sigrað gagnvart og gekk inn á skilmálana sem lagðir voru til þess að koma málinu út úr heiminum.

Menn hafa farið hér í miklar æfingar til þess að reyna að umskrifa svo til samtímasöguna. Það er athyglisvert að fletta upp á gögnum frá þessum tíma. Og hvað sögðu menn sjálfir þá (Gripið fram í: Já.) um það sem var að gerast, (Gripið fram í: Já, það …) t.d. forsætisráðherra og fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra?

Ég hef hér vitnað í það sem hæstv. forsætisráðherra sagði strax 8. október, að ríkið mundi standa á bak við innlánstryggingarsjóð og tryggja honum nægjanlegt fé til að ráða við skuldbindingar sínar. Ég hef vitnað í það sem þáverandi fjármálaráðherra Árni Mathiesen sagði 11. október þegar hann talaði í öllum fjölmiðlum. Og í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu var talað um samkomulag sem væri í höfn um að útkljá málið. Síðan nefna menn hin frægu Brussel-viðmið og það er margt sagt um þau. Það virðist gleymast þar að í Brussel-viðmiðunum stendur fleira en að taka eigi tillit til fordæmalausra og erfiðra aðstæðna Íslendinga. Það er líka sagt í Brussel-viðmiðunum að Ísland ætli að ábyrgjast lágmarksinnstæðutryggingar og að Ísland ætli samningaleiðina og ekki fyrir dómstóla. Á þessu var enn fremur hnykkt í yfirlýsingu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn 15. nóvember á síðasta ári.

Hvað sögðu þáverandi hæstv. forsætisráðherra og þáverandi hæstv. utanríkisráðherra þegar þau tilkynntu um Brussel-viðmiðin, niðurstöðuna 16. nóvember? Haft er eftir hæstv. forsætisráðherra í viðtali við fréttastofu sjónvarpsins, og það er Þórdís Arnljótsdóttir fréttamaður sem spyr: Fellst Ísland á að greiða þessa lágmarkstryggingu á þessum innstæðum á bankareikningum Icesave? Geir H. Haarde forsætisráðherra svarar, með leyfi forseta:

„Við gerum það. Við gerum það umfram það sem eignir bankans hrökkva til.“

Með öðrum orðum, forsætisráðherra segir þarna, að í Brussel-viðmiðunum sé hluti samkomulagsins að Ísland gangist við því að greiða lágmarksupphæðirnar.

Hvað segir þáverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir? Hún segir, með leyfi forseta:

„Niðurstaðan af þessu er hins vegar sú að við föllumst annars vegar á að greiða þessa lágmarksupphæð.“

Síðan kemur útlistun hennar á sameiginlegum blaðamannafundi með forsætisráðherra um það hvað fólgið sé í Brussel-viðmiðunum. Síðan segir hún:

„Þetta er bara veruleiki sem við stöndum andspænis og verðum að beygja okkur undir eða virða.“

Og enn segir hún:

„En það var náttúrlega mjög brýnt að losa þetta mál úr þeirri erfiðu milliríkjadeilu sem þar var orðin og því frosti sem umsókn okkar til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins var í vegna þessarar deilu. Það er brýnt fyrir efnahagslífið og það er brýnt fyrir fyrirtækin í landinu og heimilin.“

Ætli það hafi svo mikið breyst þegar upp er staðið? Þetta er enn sama deilan, enn sömu vandræðin sem við þurfum að útkljá, leysa, koma til hliðar, þannig að við getum haldið áfram með okkar uppbyggingar- og endurreisnarstarf. Í raun og veru hefur ósköp lítið breyst í þeim efnum. Þetta er sama ólánsmálið. Það eru í grunninn sömu aðilarnir sem bera ábyrgð á því og það hefur allan tímann verið viðfangsefni íslenskra stjórnvalda að reyna að leysa það.

Á þessum tíma töldu menn íslenska ríkið hafa efni á því að gera þetta upp með láni til tíu ára með 6,7% vöxtum og var þó mat manna á endurheimtum eigna úr búinu aðeins 50%. Á þetta minntu viðsemjendur okkur. Og svo seint sem í bréfum í maímánuði gengu þessir draugar aftur. Þá var verið að vitna í minnisblaðið við Hollendinga og útlistanir þeirra á því hvað fólgið væri í Brussel-viðmiðunum.

Því hefur verið haldið fram að þeir sem hafa verið að semja um þessa hluti fyrir hönd Íslands hafi ekki reynt að gæta hagsmuna okkar og hafa ákaflega ómakleg og ódrengileg orð fallið í þeim efnum í garð embættismanna og starfsmanna sem ekki eru hér til þess að bera hönd fyrir höfuð sér. Mörg skjalfest gögn sem þingmenn hafa haft aðgang að mánuðum saman sýna hið gagnstæða. Bréfaskriftir við samninganefndir Breta og Hollendinga í apríl og maí þar sem rækilega er tíundað að við ætlumst til þess að tekið sé tillit til okkar aðstæðna í samræmi við Brussel-viðmiðin og við ætlumst til þess að okkur sé bætt það tjón sem við urðum fyrir með setningu hryðjuverkalaganna, samanber bréf formanns samninganefndar Íslands til Garys Roberts og Johans Barnards 4. apríl 2009. (Gripið fram í.) Sama kemur aftur fram í bréfi í maí og svo seint sem um miðjan maímánuð draga Bretar upp hvað? Jú, tilvitnun í minnisblaðið við Hollendinga og þeirra túlkun á sameiginlegu viðmiðunum. Þessar skjalfestu staðreyndir eru þarna og þær munu verða þarna.

Höfum það hugfast, háttvirtir þingmenn, þegar við reynum að búa til einhvern nýjan veruleika í orðum hér inni í þingsalnum, að hin skjalfestu gögn málsins liggja fyrir og munu gera það. Þannig verður sagan skrifuð. (Gripið fram í.) (Gripið fram í.)

Eðlilega hafa menn rætt um skuldastöðu landsins og um erfiðleikana sem við stöndum frammi fyrir sem þjóð að vinna okkur út úr. Grófa myndin er sú, að talið er, að heildarskuldir hins opinbera nálgast 130% af vergri landsframleiðslu í lok næsta árs, þar af eru 70% innlendar skuldir og 60% erlendar. Af þessum heildarskuldum er vægi Icesave 11%. Það er 11% af þessum heildarskuldum sem á ríkið hafa nú fallið vegna bankahrunsins, um 15% af vergri landsframleiðslu ef við notum þá framreiknuðu tölu að ekki verði greitt út úr búinu á næsta ári og skuldbindingin standi í 230 milljörðum kr. Það vægi sem þessi þáttur vanda okkar hefur fengið sem hluti af heildinni er úr öllu samhengi.

Auðvitað skiptir þetta máli eins og allt hitt sem við verðum að takast á við. En sem betur fer er það nú mat aðila að staða hins opinbera, ríkis og sveitarfélaga, að meðtaldri ríkisábyrgð, sé betri en menn reiknuðu með. Útslagið er í skuldum einkaaðila, þannig að staða ríkisins reynist betri þegar upp er staðið, betri en menn óttuðust framan af öllu þessu ári.

Vinir okkar í Lettlandi eiga í miklum erfiðleikum og hjarta okkar slær með okkar baltnesku vinum. En við skyldum aðeins bera saman aðstæður Letta og Íslendinga áður en við vorkennum okkur of mikið. Það eru himinn og haf á milli þess þegar skoðaðar eru ríkulegar auðlindir Íslands, þegar skoðað er hvað Ísland er þróað og vel uppbyggt samfélag með öfluga innviði og miklu lengra komið á margan hátt í uppbyggingu sem nútímalegt samfélag en vinir okkar þarna eystra eftir sína áralöngu kúgun og áþján. (TÞH: Ég hélt að hér væri allt í rúst eftir Sjálfstæðisflokkinn.)

Og ætli það sé nú ekki þannig að við gerum rétt í því, þingmenn, að missa ekki trúna á framtíðina. Halda menn að það hjálpi okkur, eða er ekki verkefnið það að koma Íslandi í gegnum þessa erfiðleika? Er það ekki það sem við ætlum að sameinast hérna um? Ég hélt það. Ég hélt við hefðum boðið okkur fram sem fulltrúar á þjóðþinginu til þess að reyna að gera gagn og gera okkar besta til þess að fara saman í gegnum þessa erfiðleika og sigrast á þeim. Það mun Ísland gera, hvað sem öllum úrtöluröddum líður.