138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þá skoðun mína sem áður hefur komið fram að við erum öll hér þingmenn þjóðarinnar á þingi til þess að gera gagn. Ég vona að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki verið að ýja að einhverju öðru í ræðu sinni.

Hæstv. ráðherra talaði um að það væri fróðlegt að skoða hvað menn hefðu sjálfir sagt og sagan mundi dæma okkur af því hvað væri hægt að gera og lesa úr því sem við hefðum sjálf sagt. Nú gæti ég vitnað í blaðagrein sem stjórnarandstæðingurinn þáverandi, Steingrímur J. Sigfússon, skrifaði í janúarmánuði síðastliðnum, minnir mig, þar sem hann fann Icesave-lausninni og leiðinni sem ríkisstjórnarflokkarnir höfðu valið allt til foráttu. En ég ætla hins vegar að geyma mér það og vísa frekar í það sem Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, sagði hér í umræðunni 8. júní, þar sem hann vísaði í að hið illræmda minnisblað sem undirritað var með Hollendingum væri forsenda þess og þeirrar leiðar sem núverandi ríkisstjórn fór í málinu.

Nú hefur það verið upplýst milli 2. og 3. umræðu að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, (Forseti hringir.) er alls ekki sammála þessari túlkun. Því hef ég haldið því fram að (Forseti hringir.) ákvarðanir ríkisstjórnarflokkanna byggi á röngum forsendum. Hvernig svarar hæstv. fjármálaráðherra þessum skoðanaágreiningi hans og Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur?