138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:28]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ágætlega læs þannig að ég hef kynnt mér þetta mál og talað mjög mikið í því, kannski of mikið að mati hæstv. fjármálaráðherra, það hefur stundum verið ýjað að því.

Þáverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, mat stöðuna svo að með Brussel-viðmiðunum hafi samkomulagið eða minnisblaðið við Hollendinga verið sett út af borðinu. Það er einfaldlega staðreynd. Hjá henni verður ekki komist. Ef ég væri Breti í samningaviðræðum við Ísland mundi ég að sjálfsögðu reyna að nýta mér að þetta minnisblað var gert. Að sjálfsögðu gerðu Bretar það. Það er ekkert eðlilegra en að Bretar reyni að nýta þetta sér í hag. En að sjálfsögðu áttu samningamenn Íslands og hæstv. fjármálaráðherra að beita sér fyrir því að slíkum sjónarmiðum væri algjörlega hafnað á grundvelli Brussel-viðmiðanna. Það var að sjálfsögðu það sem íslensk stjórnvöld áttu að gera. Það væri ágætt ef hæstv. fjármálaráðherra gæti upplýst mig um það hvers vegna ekki var staðið fastar í fæturna varðandi það að Brussel-viðmiðin yrðu notuð frekar. Hvernig stóð á því að ESB kom ekki frekar að málinu sem milligöngumaður og hvers (Forseti hringir.) vegna var ekki valin sú leið sem Brussel-viðmiðin gerðu ráð fyrir?