138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Eitthvað skjöplast hv. þingmanni því að það hefur legið fyrir síðan í nóvember að stærðargráða ábyrgðarinnar gæti verið um 600 milljarðar kr. Það staðfesti m.a. þáverandi hæstv. forsætisráðherra í blaðaviðtali sem ég er með afrit af hér hjá mér. Það er hins vegar rétt að við vorum á þeim tíma að gera okkur vonir um að það sem endaði á tryggingarsjóðunum eða ríkinu umfram eignir gæti verið af stærðargráðunni 75–150 milljarðar. Þær tölur voru dálítið fljótandi á þessum tíma. Nú stendur krafan í 189 milljörðum framreiknað og gæti í lok næsta árs orðið um 230 milljarðar, ef svo illa tekst til að ekki takist að hefja greiðslur út úr búinu á næsta ári. Í því felast ríkir hagsmunir okkar að það gangi sem fljótast fyrir sig, að við fáum aðgang að þeim eignum sem þarna liggja þegar fyrir og hægt væri að nota til að lækka niður höfuðstólinn, sem og að við grípum til allra annarra mögulegra ráðstafana til að gera okkur þetta sem bærilegast, svo sem eins og vaxtaskiptasamninga, jafnvel einhverra fyrirframgreiðslna inn á lánið sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda verði aðstoðaður við.

Að sjálfsögðu verður allt reynt sem hægt er í þeim efnum (Forseti hringir.) að gera byrðarnar af þessu sem léttastar.