138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:37]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé hafið yfir allan vafa að aldrei hefur verið reiddur fram annar eins gagnabunki í tengslum við nokkurt mál eins og hér hefur verið gert og opnaður aðgangur að skjölum sem eiga sér fáar ef nokkrar hliðstæður og allt gert opinbert sem hægt er án þess að brjóta með neinum hætti reglur sem gilda um meðferð gagna í samskiptum aðila eða samskiptum ríkja. Sá hluti málsins hefur verið hafður í trúnaðarmöppum fyrir þingmenn. Ég veit ekki annað en að alltaf hafi verið brugðist við öllum óskum og leitað í skjalasöfnum ef það væru einhver hliðargögn eða eitthvað í viðbót sem mætti að gagni koma fyrir menn til þess að átta sig á þessu.

Við getum auðvitað lengi kallað inn nýja og nýja aðila og beðið þá um að kíkja á þetta mál fyrir okkur, sérstaklega ef svo er komið á Íslandi að fyrir fram sé sjálfgefið að tortryggja og gagnrýna allt sem kemur frá innlendum aðilum og stofnunum eins og Seðlabankanum, Hagfræðistofnun Háskólans og öðrum slíkum aðilum í þessum efnum. Spurning er þá um hversu lengi menn ætla að halda slíkum leik áfram og hvaða tilgangi það þjónar. Fer ekki að koma að því að lokum (Forseti hringir.) að slíkt sé tæmt? Liggur ekki nokkurn veginn allt fyrir sem hv. þingmenn þurfa til þess að gera upp hug sinn?