138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort allt liggur fyrir, hæstv. ráðherra. Ef það er að koma í ljós, t.d. hér í dag, að enn eru gögn sem þingmenn hafa ekki fengið að sjá, hvernig getum við þá fullyrt að allt liggi fyrir? Ég get ekki treyst því. Þingmenn geta ekki treyst því að ríkisstjórnin sé búin að leggja fram öll þau gögn sem til eru í þessu máli. Það hefur komið í ljós í dag að því er ekki að treysta, því miður, hæstv. ráðherra. Það er ljótt að segja það, en þannig er það nú.

Það er nú frægt hvernig minnisblað, sem aðstoðarmaður ráðherra sást hripa niður í flugvél, kom fram, en ég ætla að vona að það séu ekki fleiri gögn sem eru dulin einhvers staðar eða hulin þingheimi, en svo virðist vera. Því miður virðist svo vera.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra, af því honum er tamt að horfa til baka og líta á söguna, út í lykilpersónu í fjármálageiranum á tíma hrunsins. Sá sem var varaformaður stjórnar Seðlabankans og síðan stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins – er það rétt að ríkisstjórnin, þá hæstv. ráðherra, sé búin að skipa hann sem formann stjórnar Íslandsbanka?