138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú einfalt að svara því. Sú skipan er ríkisstjórn og Alþingi algerlega óviðkomandi, því það er nýr eigandi bankans sem tilnefnir fjóra af fimm mönnum í stjórn. Ríkið tilnefnir bara einn mann og það gerir Bankasýslan á grundvelli tillagna frá sérstakri valnefnd, (GBS: Hvern tilnefndir þú?) þannig að ríkið hefur enga aðkomu að — ég tilnefndi engan, það er Bankasýslan sem gerir það á grundvelli tillagna frá valnefnd. (GBS: Hvern tilnefndi hún?) Og það kemur bara í ljós hverjir sitja þarna í bankaráði. En aðrir bankaráðsmenn eru á ábyrgð nýju eigendanna og það er alfarið þeirra að svara fyrir það hverja þeir skipa.

Svo vil ég bara segja um þessar endalausu ásakanir sem alltaf liggja hér í loftinu, um að menn séu viljandi að leyna einhverjum hlutum — næst á eftir landráðabrigslunum, sam vaðið hafa uppi alveg endalaust, og ákaflega dapurlegt hefur verið að hlusta á, kemur þetta alltaf með leyndina. Til hvers hefur það nú m.a. leitt? Jú, það leiðir til þess að gerð eru opinber gögn, lögfræðileg álit, sem gætu beinlínis verið skaðleg hagsmunum Íslands. Menn nenna auðvitað ekki að sitja (Forseti hringir.) endalaust undir slíkum ásökunum, (Forseti hringir.) og gera það jafnvel þó það skaði hagsmuni landsins, og gera slíkt opinbert að kröfu stjórnarandstöðunnar. (Gripið fram í.)