138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:41]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hygg að það sé rétt að utanríkisráðherra fyrrverandi og forsætisráðherra hafi gefið út yfirlýsingu um að ríkið stæði við innstæðutryggingarsjóð hvað varðar fjármögnun, það hafi verið gert 8. október. En má ég kannski rifja upp, með leyfi forseta, að þá var gengið út frá því að úthlutun úr þrotabúi færi að íslenskum lögum, atriði sem samninganefndin samdi frá sér. Þá var gert ráð fyrir að vextir væru forgangskröfur, vextir sem nema um 300 milljörðum í dag. Þá mat Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn það að skuldbindingin, eða það sem mundi falla á ríkið, væri í kringum 72 milljarðar. Það er svolítið annar raunveruleiki en hæstv. fjármálaráðherra vill sýna okkur fram á hér í dag.

(Forseti hringir.) Mig langar til þess að spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Væri ekki rétt að gera grein fyrir þessu (Forseti hringir.) um leið og þú gerir grein fyrir því hvernig menn fjölluðu um málið á þessum tíma?