138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:26]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir skýra og ágæta ræðu þótt ég sé að sjálfsögðu ekki sammála nokkrum sköpuðum hlut sem þar kom fram. Mig langar að spyrja hv. þingmann út í eitt atriði. Hv. þingmaður fullyrðir að ef Alþingi samþykki ekki það frumvarp sem hér liggur fyrir sé þátttaka okkar í EES í hættu. Hvernig er sú fullyrðing rökstudd af hálfu hv. þingmanns? Því hefur margoft verið haldið fram í þessu máli án þess að ég hafi séð nokkurn rökstuðning fyrir því. Ég man reyndar til þess að formaður samninganefndarinnar, Svavar Gestsson, sló þessu fram í viðtali í Morgunblaðinu, jafnframt án rökstuðnings. Ef það eru einhver rök fyrir þessu væri ágætt að fá að heyra þau.

Það er ekki hægt að sjá það á minnisblaði fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar sem fjallaði um það hvernig ferill málsins var á hennar valdatíma. Þvert á móti kom þar fram að með Brussel-viðmiðunum (Forseti hringir.) skuldbatt ESB sig til þess að vera aðili að því að leysa þetta deilu. Þar með hlýtur það að verða til þess að skjóta styrkari stoðum undir það samstarf sem við eigum í við ESB í gegnum EES.