138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:06]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við erum komin að merg málsins. Við eigum ekki að greiða þetta og höfum aldrei átt að greiða þetta. Það er rúmlega ár frá því að hrunið varð, búið er að setja nýja reglugerð í Evrópusambandinu sem hækkar innstæður eiganda í þessum sjóðum. Hættan er liðin hjá. Lög virka ekki aftur á bak þannig að við komumst ekki inn í þetta sjálf, við Íslendingar, en búið er að afstýra hættunni. Það verður ekki áhlaup á bankana úti í Evrópu þar sem búið er að tryggja þetta og setja ríkisábyrgð upp á 50.000 evrur á hvern innstæðutryggingarsjóð.

Málið er einfalt og þess vegna á að fella þetta mál niður, semja við Breta og Hollendinga þar sem margbúið er að gefa í skyn að við stöndum ekki undir þessum skuldbindingum. Hættan er liðin hjá, Bretar og Hollendingar hafa fullkomið frelsi til að borga allt það sem þeir borguðu innstæðueigendum sínum en þeir eiga að hlífa okkur sem smáþjóð, sérstaklega í ljósi þess að þeir eru að reyna að fá okkur inn í Evrópusambandið. Þeir eru farnir að skemma svo fyrir sér að aðildarumsókn Íslendinga að Evrópusambandinu stendur í fullkomnu uppnámi, þetta er hræðsluáróður. Og hver er (Forseti hringir.) áhættan fyrir Breta og Hollendinga að leyfa okkur að reka dómsmál hér á landi (Forseti hringir.) í stað þess að reka þetta fyrir breskum dómstólum?