138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:13]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Til að svara fyrst þessu síðara: Í fyrirvörunum í sumar átti það að gerast að ef við Íslendingar gætum ekki borgað — vegna þess að hér yrði enginn hagvöxtur, vegna þess að einhver áföll hefðu orðið, eða vegna þess að neyðarlögin héldu ekki eða eitthvað slíkt — ættum við ekkert að borga eftir 2024 þó að heilmikið af skuldinni væri eftir. Þá átti að semja upp á nýtt og þá vorum við í þeirri sterku stöðu að geta sagt við Breta og Hollendinga: Hér urðu áföll.

Varðandi sambærileg lánskjör stendur í nefndaráliti frá efnahags- og skattanefnd, 1. minni hluta, að Daniel Gros bendi á að innstæðutryggingarkerfi Breta og Hollendinga séu að miklu leyti fjármögnuð með lánum úr ríkissjóði landanna. Þeir útlánsvextir sem yfirvöld í Bretlandi bjóði innstæðutryggingarsjóði sínum séu 1,5%, eða 4% lægri en vextirnir sem krafist er af íslenska innstæðutryggingarsjóðnum. (Gripið fram í.) Þetta eru þeir vextir sem menn eru að bera saman. (Gripið fram í: Er þetta sambærilegt?) Já, auðvitað, þeir eru að lána innstæðutryggingarsjóði innan Evrópska efnahagssvæðisins.