138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. 19. október 2008 tók ég á mig ábyrgð sem þingmaður — það má lesa í þingræðum, það var stuttu eftir hrun — ég tók á mig ábyrgð ef ég bæri einhverja í þessu, og vissulega bera allir ábyrgð.

Varðandi það að ræða mín sé dæmalaus, ég veit ekki hvort ég á að taka það sem hrós eða sem skömm, en ég ákveð að taka það sem hrós. Það eru engin dæmi um svona góða ræðu, þannig að hún er dæmalaus.

Ábyrgð manna hlýtur að felast í því hvar þeir stóðu og það vill svo til að innlánstryggingakerfið í Hollandi heyrði undir Fjármálaeftirlitið sem heyrði undir viðskiptaráðherra og þar var hæstv. viðskiptaráðherra þá Björgvin G. Sigurðsson. (Gripið fram í.) Mig minnir að hann sé í Samfylkingunni og hann ber ábyrgð á því alfarið (Gripið fram í.) vegna þess að hann var ráðherra yfir því embætti og þar var ákveðið að blása út þessa innlánsreikninga í Hollandi og þeir uxu þvílíkt á tveim á þrem mánuðum. (Gripið fram í: Hver var í viðskiptaráðuneytinu þegar …?) Og meira að segja Jón Sigurðsson, sem var varaformaður stjórnar Seðlabankans og stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins (Gripið fram í: Hver var fyrsti ráðherrann sem sagði af sér?) lét birta viðtal við sig í auglýsingablaði Landsbankans í Hollandi þar sem hann sagði að íslensku bankarnir stæðu vel en hann vissi betur. (Gripið fram í: Hver afnam bindiskylduna?)