138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:19]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lesa upp allan þennan bunka hérna, menn geta verið rólegir yfir því.

Þetta er svolítið sérkennileg umræða sem fer hér enn á ný fram um Icesave-málið. Hér skiptast þingmenn í andstöðu og með þessu máli, stjórnarflokkarnir og stjórnarandstaðan, í máli sem allir ættu í raun að vera sammála um og allir að berjast gegn sameiginlegum óvini, sem eru hin erlendu ríki sem eru að kúga okkur til þess að borga skuld sem íslenska þjóðin stofnaði ekki til heldur einhverjir framagosar sem störfuðu jú eftir reglum Evrópusambandsins (Gripið fram í.) og voru samkvæmt EES-samningnum sem hæstv. samgönguráðherra ber m.a. ábyrgð á og fleiri. Við ættum að sameinast gegn þessum óvini okkar í staðinn fyrir að rífast innbyrðis um þetta mál.

Þannig er, frú forseti, að Icesave-flokkarnir sem ég kýs að kalla svo, Samfylking og Vinstri græn, því að þau gera þennan samning, þessir flokkar bera ábyrgð á þessum samningi, þessir flokkar ætla að keyra þennan samning í gengum þingið. Það kann vel að vera, og ég ætla ekkert að gera lítið úr því, að allir flokkar á Alþingi fyrir utan hugsanlega Hreyfinguna og hv. þm. Þráin Bertelsson, beri einhverja ábyrgð á því ástandi sem hér skapaðist. Ég ætla ekki að skorast undan því að Framsóknarflokkurinn ber einhverja ábyrgð á því. En við sem erum í stjórnarandstöðunni núna berum enga ábyrgð á þeim samningi sem hér á að gera, þeim afarkostum og þeim vonda samningi sem liggur fyrir þinginu, þ.e. að veita ríkisábyrgð á vonlausan samning, (Gripið fram í.) vonlausan samning, hv. þm. Róbert Marshall, sem þú virðist ætla að samþykkja. (Gripið fram í.) Algjörlega, við ætlum ekki að bera ábyrgð á þessum samningi. (Gripið fram í.) Við höfum hins vegar sagt, hv. þingmaður, að líklega er komið þannig fyrir þjóðinni að þetta ber að borga. Persónulega segi ég að okkur beri ekki skylda til að borga þetta, alls ekki, okkur ber engin skylda til þess. En stjórnvöld, þar á meðal Icesave-flokkarnir sem hv. þingmaður tilheyrir, hafa komið því þannig fyrir að nú verðum við að borga (VBj: Rétt.) og þá er ekki sama hvernig það er gert, hv. þingmaður. Þá verðum við að gera það þannig að þjóðin geti staðið undir því og að börnin okkar geti lifað þokkalega í framtíðinni. Þessi samningur tryggir það ekki, hann tryggir þeim ekkert nema óvissu, hv. þingmaður, og það er það sem er óþolandi að þingmenn virðast ætla að samþykkja hér opinn tékka og óvissu inn í framtíðina.

Eitt af því alvarlegasta við þennan samning er það að þeir sem ætla að segja já við þessu vita í raun ekki og hafa ekki hugmynd um hvað þeir eru að samþykkja, þeir vita ekki hver niðurstöðutalan verður, ekki neitt, vita ekkert hve lengi við þurfum að borga þetta. Við vitum ekki hvernig efnahagsþróunin verður í Bretlandi eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur bent á. Þetta ætla menn að samþykkja og vegna hvers? Jú, vegna þess að það er verið að kúga okkur til að gera þetta, það er verið að kúga okkur til að samþykkja þetta og hver er þar að baki? Evrópusambandið, enginn annar. Það má ekki trufla þá hugljómun sem Samfylkingin hefur varðandi það kratasamband.

Það virðist sem Icesave-flokkarnir séu búnir að tryggja sér meiri hluta á þinginu, en það er svolítið merkilegt að ríkisstjórnin skuli vera í vanda með að tryggja að málið fari í gegnum þingið. Það er í rauninni stórmerkilegt að ríkisstjórnin skuli ekki geta gengið að því vísu að þetta mál fari í gegnum þingið og þurfi jafnvel að reiða sig á þingmenn annarra flokka til að svo geti orðið. Mér finnst það mjög merkilegt og það segir mér að sálartetrið hjá mörgum þingmönnum sé ekki alveg sátt við það sem hér er að fara fram, að menn hafi ekki fulla trú á því sem verið er að þræla þeim í að gera, ég við leyfa mér að orða það svo, frú forseti. En Icesave-flokkarnir, Samfylking og Vinstri græn, hugsanlega með aðstoð einhverra annarra, munu bera það inn í framtíðina að hafa samþykkt þann óskapnað sem hér á að samþykkja. Þeirra verður minnst fyrir það að hafa gert þennan samning gegn vilja nærri helmings þingmanna og þorra þjóðarinnar.

Ríkisstjórnin setti málið í mikla óvissu og ósætti að mínu viti og hún gerði það með því að gera málið pólitískt. Það voru mikil mistök að fara ekki með þetta mál þverpólitískt, ná um það sátt að hverju menn stefndu. Nei, það var farið í það að gera málið pólitískt, skilja að stjórn og stjórnarandstöðu og þannig hefur málið verið unnið alla tíð síðan. Þetta voru mikil mistök en ég held að hægt sé að bæta fyrir það, ég held að hægt sé að laga þetta. (Gripið fram í.) Ég held, hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, að hægt sé að laga þetta með því að menn viðurkenni að það hafi orðið mistök, að það átti ekki að gera þetta pólitískt heldur leita leiða til að þingið stæði saman í þessu og kæmi sterkara fram gagnvart þeim fjandsamlegu öflum sem vilja láta okkur borga þetta. (Gripið fram í.)

Ég hef ekki séð, a.m.k. ekki fengið upp á borðið efnisleg rök fyrir því að samþykkja samninginn eins og hann lítur út. (Gripið fram í.) Það hafa engin efnisleg rök verið lögð fram. Í gegnum umræðuna hefur sýknt og heilagt verið talað um að hitt og þetta gerðist ekki ef við samþykktum ekki samninginn. Ólukkans umsóknin að Evrópusambandinu er í einhverjum farvegi, ekki er það það, það getur ekki verið. Endurreisn bankanna virðist vera að ljúka, ekki er það það. Erlendu lánin eru farin að berast, ekki er það það. Hvað er það þá sem við þurfum að óttast? Jú, það kom fram í máli mínu áðan. Menn hafa talað um, og m.a. varaformaður fjárlaganefndar, að málið væri skýrt. Málið er alls ekkert skýrt. Það liggur ekki ljóst fyrir hvort og hvernig við eigum að greiða þetta. Það liggur ekki fyrir hvernig eignir Landsbankans, sem eiga að ganga upp í þessari skuldir, muni innheimtast. Það liggur ekki fyrir, og það liggur ekki fyrir hversu lengi við þurfum að greiða þetta. Það er ekkert ljóst í þessu máli annað en það að ríkisstjórnin, Icesave-flokkarnir, ætla að láta þjóðina borga þetta. Það hefur komið fram og það er mjög einfalt að segja að við getum borgað þetta, því að auðvitað getum við borgað þetta með því að skattleggja þjóðina, með því að skera niður í útgjöldum ríkisins. Við getum borgað allt ef við bara skattpínum landann nógu mikið og skerum niður þjónustu, þá getum við borgað þetta, það er engin spurning. En er það það sem þessir flokkar boða? Ég held að þeir ættu þá að ganga hreint til verks og segja það hreint út.

Þetta mál gerir það að verkum að það er orðið mikið ósætti meðal landsmanna. Þingið ber mikla ábyrgð á því og ég ætla ekkert að skorast undan þeirri ábyrgð. (Gripið fram í.) Já, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur finnst það gott, en ég vildi þá gjarnan að hún lýsti líka yfir ábyrgð Samfylkingarinnar í þessu máli frá fyrsta degi, frá a til ö, mér hefur þótt skorta á það, hv. þingmaður.

Hér hefur líka verið kvartað yfir vantrausti og að sífellt væri verið að saka þá tvo flokka sem ætla að bera ábyrgð á þessu máli, Icesave-flokkana, Samfylkingu og Vinstri græna, um leynimakk. Það eru ástæður fyrir því að hér er vantraust í gangi. Getur það verið það að hæstv. ráðherra lýsti því yfir 3. júní sl. að það væri ekki verið að gera neina samninga og síðan kom í ljós 5. júní að það lágu fyrir fullkomin drög að samkomulagi? Getur verið að stjórnarandstaðan efist um heilindi út af því? Getur verið að stjórnarandstaðan efist um heilindi stjórnarliða og ríkisstjórnar í þessu máli þegar kreista þarf gögn út úr ríkisstjórninni og sum eru sett í leynimöppu svo þau fari örugglega ekki fyrir augu almennings? (Gripið fram í.) Getur verið að það sé vegna tölvupósts aðstoðarmanns fjármálaráðherra sem fór hér á flug um að menn hefðu vantraust á þessu verki öllu saman, þegar kom í ljós að það mátti ekki ræða þetta mál fyrir kosningar, þegar fyrir lá um hvað ætti að semja fyrir kosningar en það mátti ekki ræða það því að það gæti kannski skapaði einhverja óvissu? Getur verið að vantraustið sé út af því og getur verið að vantraust framsóknarmanna sé vegna þess að það hefur komið upp að farið var á bak við framsóknarmenn meðan þeir vörðu ríkisstjórn Icesave-flokkanna á sínum tíma?

Engan þarf að undra að hér ríki vantraust þegar haldið er á málum með þessum hætti. Þetta er heimatilbúið vantraust sem átti að taka á fyrir löngu, það átti að segja fyrir löngu: Stopp, við verðum að nálgast þetta öðruvísi, við verðum að sameina þingið og þjóðina gegn þeim óvini sem er þarna úti sem ætlar að láta okkur borga eitthvað sem okkur ber ekki.

Hér hefur mörgum sinnum verið farið yfir þá tilskipun sem sagt er að við eigum að borga eftir. Það er margbúið að fara yfir þessa Evróputilskipun og bent hefur verið á að fjármálaráðherrar og seðlabankastjórar úti í Evrópu hafi bent á að hún eigi ekki við í þessu tilviki. Samt æða menn áfram. Það eru að koma fram ný gögn, ný álit og nýjar upplýsingar og það er ekkert gert með þetta, málið er bara keyrt áfram. Mér finnst í raun mjög sérkennilegt að samfylkingarþingmenn og -ráðherrar minnast ekki einu orði á þá yfirlýsingu sem fyrrum formaður þeirra, fyrrum hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, hefur sent Alþingi þar sem ferill málsins er rakinn, þar sem hún segir og fer berum orðum yfir það hvernig þessi saga var. Ég vildi óska að hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Geir Haarde, hefði gert jafnskilmerkilega grein fyrir þeim hlutum en því miður gerði hann það ekki.

Í þessu minnisblaði frá fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, kemur alveg skýrt fram að mat hennar er það að núverandi ríkisstjórn og minnihlutaríkisstjórnin sem sat í vetur hafði algjörlega hreint borð til að semja, algjörlega hreint borð til að gera hvaða samning sem var. Hún var ekki á nokkurn hátt bundin af fyrri drögum, uppköstum eða minnisblöðum sem höfðu verið gerð. Brussel-viðmiðin lágu til grundvallar og bar að styðjast við þau. Svokallað minnisblað frá 11. október eða MOU sem kallað er hér, 14. nóvember var það úr sögunni að mati fyrrverandi formanns Samfylkingarinnar. Mig langar að spyrja, af því að ég veit að tveir hv. þingmenn Samfylkingarinnar ætla að koma í andsvar við mig: Eru þeir sammála því eða telja þeir að þeirra fyrrum formaður sé að fara með fleipur?

Síðan kemur fram í þessu minnisblaði fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, hún er að rekja ECOFIN-fundinn í Brussel, hún er að fjalla um umsamin viðmið, hún er að tala um stofnanir Evrópusambandsins og AGS og fleira og hér segir, með leyfi forseta:

„Ástæðan fyrir þessu var fyrst og fremst sú að við litum ekki einvörðungu á þetta sem tvíhliða deilu við Hollendinga og Breta heldur væri sú deila afleiðing af því gallaða regluverki sem gilti um evrópska fjármálamarkaðinn. Mikilvægt væri að ESB skynjaði ábyrgð sína gagnvart Íslandi sem þátttakanda í hinum innri markaði með frjálsu flæði fjármagns þó það væri ekki aðildarríki að bandalaginu.“

Þetta segir fyrrum utanríkisráðherra landsins og formaður Samfylkingarinnar. Af hverju í ósköpunum höldum við þá svona á málum eins og við virðumst vera að gera? Af hverju liggjum við, liggur mér við að segja, í duftinu fyrir Evrópusambandinu í staðinn fyrir að benda á þá staðreynd að að sjálfsögðu á Evrópusambandið að beita sér fyrir því að þetta mál sé leyst í bróðerni og á réttlátan hátt í stað þess að þvinga einhliða samninga yfir Ísland? Ég fæ engan botn í þetta nema þann sem ég nefndi áðan sem er að það sem hangir á spýtunni er hótun um að tefja fyrir aðildarviðræðum. Það er náttúrlega afar sérstakt að slíkt skuli koma upp því að ég hefði haldið að það væri hagur Breta og Hollendinga og hagur Evrópusambandsins að Ísland gengi í Evrópusambandið miklu frekar en að Ísland hafi nokkurn tíma einhvern hag af því. (Gripið fram í.) Aldrei, Ísland hefur engan hag af því, við munum fórna allt of miklu. Þeirra hagur væri að Ísland gæti staðið í skilum, gæti greitt þessa skuld með sómasamlegum hætti, byggt hér áfram upp glæsilegt samfélag og þess vegna, ef þjóðin vildi, gerst aðili að þessu sambandi. Því miður hefur ekki verið haldið þannig á málum.

Frú forseti. Ég segi enn og aftur það sem ég sagði áðan: Að mínu viti er enn þá tækifæri til að sameina þingið og hugsanlega þjóðina að baki þinginu með því að vísa þessu máli frá, skipa þverpólitíska samninganefnd sem hefði leyfi til að leita til og fjármagn til að kalla til bestu sérfræðinga á sviði alþjóðasamninga og fara og hitta þessa erlendu aðila (Forseti hringir.) á jafnréttisgrunni.