138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mjög undarlegt andsvar hjá hæstv. ráðherra því að hann spurði og svaraði sjálfum sér. Ég vona að hæstv. ráðherra sé ekki það mikið eldri en ég að við þurfum að fara yfir þetta núna á þessari mínútu en úr því að hæstv. ráðherra er búinn að gleyma því sem hann sagði sjálfur þá var það ráðherra Framsóknarflokksins, fyrrverandi hæstv. viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir, sem var viðskiptaráðherra á þessum tíma í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra sé með þetta á hreinu núna.

Hæstv. ráðherra hlýtur þá að kannast við að Icesave-samningarnir í Hollandi urðu væntanlega til eitthvað síðar og það er ágætt að hann rifji það upp. Hæstv. ráðherra ætti að geta rifjað það upp líka hvað þessir svokölluðu Icesave-samningar í Hollandi og Bretlandi stækkuðu mikið í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Hvenær blésu þeir út? Hver var þá viðskiptaráðherra? Hver var þá varaformaður stjórnar Seðlabankans? Hver var þá stjórnarformaður Fjármálaeftirlitsins? Hvaða flokki tilheyra þessir ágætu aðilar? Ég held að það sé alveg ljóst að Samfylkingin getur ekki hlaupist undan merkjum eins og henni er tamt að gera í þessum ræðustól. Það er með ólíkindum hvernig sá flokkur hagar sér hér á þingi, lætur eins og hann hafi aldrei nokkurn tímann komið að stjórn landsins, verandi arfleifð gamla krataflokksins sem dó drottni sínum og er nú Samfylkingin í dag. Menn koma hingað upp, bæði þingmenn og ráðherrar, og láta eins og þeir hafi aldrei komið í þingsal áður eða inn í ráðuneyti.

Frú forseti. Öll berum við einhverja ábyrgð og Framsóknarflokkurinn skorast ekki undan því eins og hefur sést á sögu hans síðustu mánuði og ár. (Gripið fram í.) Ég vona að hæstv. ráðherra komi upp í ræðu og fari yfir þetta seinna í dag eða á morgun því að ég hefði gjarnan viljað eiga við hann orðastað nánar um þetta mál. Ég vona að hann komi hingað í annað andsvar.