138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ræða hv. þingmanns var nokkuð kaflaskipt. Um tíma var hún nokkuð málefnaleg en af því að hv. þingmanni var tíðrætt um nýja Ísland og að taka ætti sig úr hjólförum flokkapólitíkur o.s.frv. var kannski ekki alveg samræmi á milli þessara sérkennilegu samsæriskenninga sem væntanlega voru frekar fluttar hér til gamans en að það ætti að taka alvarlega. Enda veit hv. þingmaður að ef menn fara út í að fella ríkisstjórn þarf þingmeirihluta til og hv. þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar, eins og hv. þingmaður fór yfir, eru með góðan meiri hluta í þingi. Það mun ekkert breytast nema við kosningar, sem við erum ekki að fara í.

Ég vildi spyrja hv. þingmann tveggja spurninga. Hv. þingmaður er eins og þingmenn Samfylkingarinnar mjög vel að sér þegar kemur að Evrópusambandinu og búinn að skoða þau mál mjög vel. Hugmynd þeirra sem eru innan Evrópusambandsins og fylgjandi því er sú að mörg mál séu þess eðlis að þau séu eða vinnist á vettvangi Evrópusambandsins. Nú er það held ég öllum ljóst, alveg sama hvernig að málinu er komið, að tilskipunin sem við erum í rauninni að vinna út frá er meingölluð og gerði ekki ráð fyrir ýmsum hlutum sem urðu. Af því að menn tala um ábyrgð — telur hv. þingmaður ekki eðlilegt að þetta sé tekið fyrir á vettvangi Evrópusambandsins eins og menn eru í raun að vinna að núna, menn eru að taka upp þessa tilskipun? En talandi um ábyrgð, er þessi þáttur þá ekki á ábyrgð Evrópusamstarfsins?

Síðan hitt af því að hv. þingmenn hafa vísað í samkomulag sem var gert hér eða ekki samkomulag, samþykkt sem gerð var í þinginu, þá töluðu forustumenn Samfylkingarinnar um að fyrirvararnir sem þá voru gerðir væru innan (Forseti hringir.) samkomulagsins, fyrirvararnir væru innan þess samnings sem var gerður í júní. Spurning mín er sú: Hvað breyttist? Af hverju þurfti (Forseti hringir.) þá að taka málið upp? Vissu menn ekki hvað þeir voru að tala um?