138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:09]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Róberti Marshall fyrir ræðu hans. Eins og gefur að skilja er ég á engan hátt sammála orðum hans. Það virðist plaga ríkisstjórnarflokkana mest að það gæti gerst hér í framhaldi af því að málið yrði fellt á Alþingi að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn færu aftur í ríkisstjórn. Þessi málflutningur er náttúrlega hreint með ólíkindum því að við höfum margoft haldið því hér fram og stöndum við þau orð að líf ríkisstjórnarinnar hangir ekki á þessum Icesave-samningi þrátt fyrir það að hæstv. fjármálaráðherra hafi lagt hausinn oft að veði og að það snúist fyrst um hann og hagsmuni hans. Hann áttar sig ekki á því að hér er líf heillar þjóðar undir en ekki persónulegur metnaður hans fyrir sjálfum sér eða þessari vinstri stjórn.

Þetta eru hótanirnar sem Vinstri grænir eru beittir, að þessir hörmulegu flokkar skuli kannski komast í ríkisstjórn og með þessu er verið að reyna að fá Vinstri græna til að ganga í takt í þessari ríkisstjórn. Ég hef það beint frá þingmönnum Vinstri grænna að þetta eru hótanirnar, þetta eru nýjustu þumalskrúfurnar sem þeir eru beittir.

Þingmanninum var tíðrætt um að þessari ríkisstjórn stýri gamlir herforingjar. Ég veit nú ekki hvort hægt er að kalla þá aðila sem stjórna ríkisstjórninni herforingja en hitt man ég að svo sáttur var hæstv. fjármálaráðherra í sumar við stöðu sína að hann kallaði sig og hæstv. forsætisráðherra pabba og mömmu þingmanna. Fyrr má nú vera dónaskapurinn og yfirlætið í viðkomandi aðila.

Þá er ég komin að spurningunni — þetta var smáinngangur og pínusvör við ræðu þingmannsins: Úr því að hv. þm. Róbert Marshall er svona ánægður með þennan samning og telur að ekki verði komist lengra — þá er hann líklega að vísa í lánakjör og samninginn sjálfan — hvað finnst honum um það að í samningnum er (Forseti hringir.) ríkisstjórnin búin að afsala okkur skaðabótakröfu vegna beitingar hryðjuverkalaganna? Er það ásættanlegt?