138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:12]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það má hverjum vera ljóst sem hlustaði á ræðu mína að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir var ekki á meðal þeirra hlustenda vegna þess að ég fór mjög vandlega yfir skoðanir mínar á framgöngu Breta gagnvart okkur og lýsti því mjög ítarlega hvaða skoðun ég hefði á því og að ég liti svo á, eins og reyndar kom fram í ágætisminnisblaði frá fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að það mál væri allt algjörlega órökstutt og þarfnaðist frekari skoðunar. Það er því ekki réttur skilningur sem þingmaður leggur í ræðu mína og því síður að það sé skoðun mín að ég sé hæstánægður með þann samning sem liggur fyrir. Það er langt í frá að ég hafi haldið því fram í ræðustól að ég væri hæstánægður með þann samning. Ég sagði að ég teldi að eins og staðan væri núna kæmust menn ekki lengra með þetta mál.

Það er gleðilegt að eiga orðaskipti við hv. þingmann þar sem hún er ekki að saka mann um landráð en ég vil þó líka fara fram á það að hún fari rétt með ræðu mína.

(Forseti (ÞBack): Forseti áminnir hv. þingmenn um að nota rétt ávörp.)