138. löggjafarþing — 63. fundur,  28. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:17]
Horfa

Róbert Marshall (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður beinir til mín fleiri spurningum en ég tel mögulegt að svara á þeim tveim mínútum sem ég hef til þess. Mig langar til að taka sérstaklega þann punkt að hann segist ekki hafa skilið ræðu mína. Nú er það svo að báðir þingmenn sem hafa farið í andsvör við mig frá því að ég flutti ræðu mína komu inn í salinn í ræðu minni miðri og hafa báðir afbakað þá ræðu sem ég flutti og virðast ekkert hafa verið að hlusta á það sem ég var að segja. Þeir koma síðan í andsvör við mig án þess að hafa verið í salnum, (Gripið fram í.) þeir komu báðir samhliða inn í þingsal og báðu um að fá að fara í andsvar (Gripið fram í.) og virðast ekki hafa heyrt nokkurn skapaðan hlut af því sem ég sagði í ræðu minni. Það er ekkert undarlegt að menn hafi ekki skilið ræðuna fyrst þeir voru ekki á staðnum. Ekki hafa þeir verið að hlusta á hana á milli þess þeir gengu hérna eftir ganginum og inn í þingsal, þeir hafa kannski misst af afar mikilvægum hluta sem er algjör grundvallarforsenda þess að ná einhverjum skilningi í hana.

Mig langar til að svara því líka varðandi minnsta mögulegan meiri hluta hér á þinginu að auðvitað er þetta mál sem nýtur ekki almenns stuðnings meðal þjóðarinnar. Hv. þingmaður nefnir hér einhverja skoðanakönnun sem segir að 70% þjóðarinnar séu á móti þessu máli. Mér kemur það verulega á óvart að það sé ekki stærri hluti þjóðarinnar sem sé andvígur þessu. Eðli málsins samkvæmt er öllum illa við þann samning sem hér er verið að gera. Það er enginn að gera þetta með glöðu geði. Það er eingöngu mismunur í hagsmunamati sem liggur á milli stjórnarandstöðu og stjórnarmeirihlutans í þessu máli. Það er kaldhamrað mat stjórnarmeirihlutans að hagsmunum þjóðarinnar sé betur borgið með því að þetta mál sé til lykta leitt með þeim hætti sem hér hefur verið kynnt.

Það þýðir ekki að þingmenn stjórnarmeirihlutans séu hæstánægðir með þann samning sem hér hefur náðst, síður en svo. Menn hafa ítrekað haldið því fram að þetta sé besta mögulega lendingin sem við getum náð í mjög vondri og þröngri stöðu. Það er staðreynd málsins, þar er kjarni málsins og um það verpist deilan.