138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[09:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Almenningur veltir fyrir sér þeirri spurningu hvort skýrsla rannsóknarnefndar verði ekki örugglega birt þrátt fyrir að Alþingi sé að skipa nefnd til að fjalla um hana. Ég spyr hv. þingmann hvort það sé ekki alveg á hreinu að skýrsla rannsóknarnefndarinnar verði birt á netinu eða annars staðar opinberlega í lok janúar og síðan taki nefndin til við að fjalla um þá skýrslu og hvaða ráðstafanir Alþingi þarf að gera. Mér finnst mjög mikilvægt að það komi fram að það sé alveg á tæru að skýrslan verði birt óstytt og ósnert á netinu eða annars staðar.