138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[09:51]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Frú forseti. Hér er við 3. umr. frumvarp um meðferð Alþingis á skýrslu rannsóknarnefndarinnar, m.a. vegna hruns bankanna. Ég hef verið þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa komið að og heyrt af þessu frumvarpi frá upphafsstigum þess og lagt til ítarlegar breytingar við það vegna þess að við í Hreyfingunni teljum að frumvarpið eins og það liggur fyrir í dag sé einfaldlega vont frumvarp. Þetta er eitthvert mikilvægasta málið sem Alþingi er að takast á við, þ.e. hvernig Alþingi sjálft ætlar að taka á þeim álitamálum sem koma fram í skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Það er mikilvægt vegna þess að í þessu frumvarpi ætlar Alþingi að rannsaka sjálft sig.

Gott og vel, sumir telja að Alþingi geti rannsakað sjálft sig. Við sem komum ný inn á þing í fyrravor teljum hins vegar, einmitt á þeim forsendum að Alþingi funkeraði ekki sem eðlileg stofnun, að Alþingi sé í raun ómögulegt að rannsaka sjálft sig. Það er ekkert í þessu frumvarpi sem gerir ráð fyrir því að utanaðkomandi aðilar geti komið með ábendingar varðandi meðferð skýrslu rannsóknarnefndarinnar en við teljum það bráðnauðsynlegt.

Þetta frumvarp er ekki nógu afgerandi í því hvað þessi þingmannanefnd á að gera og þar af leiðandi er frumvarpið ótrúverðugt. Störf þingmannanefndarinnar eru ekki skýr í þessu frumvarpi og þingmannanefndin þarf í rauninni samkvæmt frumvarpinu ekki að gera neitt sem máli skiptir með skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Þingmannanefndin ætlar að gefa sér átta mánuði, þ.e. til 30. september, til að lesa þessa skýrslu. Ég leyfi mér að benda á að rannsóknarnefnd Alþingis hafði upphaflega 10 mánuði til að gera allar sínar rannsóknir. Sá tími var framlengdur um þrjá mánuði og það er gott og vel, svona mál dragast oft og tíðum, en þetta er einfaldlega allt of langur tími og þennan hluta af frumvarpinu hefði auðveldlega mátt laga með því að hafa inni upprunalega dagsetningu þar sem nefndin átti að skila af sér 10. maí.

Þingmannanefnd sem tekur á svona skýrslu á að sjálfsögðu að taka sér hlé frá þingstörfum á meðan, kalla inn varamenn og gera ekkert annað á meðan en að fjalla um þessa skýrslu og afgreiða innihald hennar. Þetta er það mikilvægt mál. Sú leið er ekki farin í þessu frumvarpi.

Ég hef borið frumvarpið undir lögfróða menn, m.a. einn af virtustu lögfræðingum landsins. Samantekið álit margra þeirra sem ég hef talað við var að með þessu frumvarpi geti þessi þingmannanefnd skilað af sér einhvers konar froðu um verslunarmannahelgina þegar enginn tekur eftir því. (Gripið fram í.) Þetta er ekki einhver tilbúningur Hreyfingarinnar eða minn, þetta er álit fjölmargra sem eru utan þingsins og það er alvarlegt mál. Þess vegna erum við í Hreyfingunni mjög ósátt við það að Alþingi ætli að afgreiða málið með þessum hætti. Það hefði verið hægt að gera það miklu betur og það þarf að gera það miklu betur.

Hreyfingin lagði til breytingartillögu við þetta frumvarp alveg á upphafsstigum þess þegar fyrstu drögin komu fram. Við lögðum m.a. til í bæði forsætisnefnd og allsherjarnefnd að þingmannanefndin yrði skipuð fimm mönnum í stað níu, það yrði einn úr hverjum flokki, þetta yrði ekki hefðbundin pólitísk þingmannanefnd. Við óskuðum líka eftir því að nefndarmenn hefðu ekki átt sæti á Alþingi fyrir október 2008 eða hefðu óumdeilanlega engin tengsl við þá atburði eða gerendur sem getið er í fyrirsögn frumvarpsins.

Önnur tillaga sem við vorum með var í þá veru að skipuð yrði nefnd fimm valinkunnra manna utan þingsins sem hefði það hlutverk að fjalla um þá þætti skýrslunnar sem snerta alþingismenn og ráðherra, núverandi og/eða fyrrverandi, og fjölskyldur þeirra. Það yrði einnig hlutverk þeirrar nefndar að fjalla um öll atriði sem hugsanlega kæmu fram í skýrslunni og snerta Alþingi sjálft sem stofnun. Við höfum séð það í gegnum árin og áratugina, frú forseti, að Alþingi er ekki vel hæft til að fjalla um atriði er snúa að Alþingi sjálfu, t.d. hafa breytingar á stjórnarskránni aldrei getað átt sér stað vegna pólitísks ágreinings nema að mjög litlu leyti.

Þriðja atriðið var að við lögðum til að gögn málsins, þ.e. þau gögn sem eru að baki rannsóknarskýrslunni, yrðu færð á Þjóðskjalasafnið og þau gerð opinber eins og hægt er. Hreyfingin leggur í þessu efni áherslu á að höfð sé í huga öll sú umræða sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu varðandi hvaða aðilar bera höfuðábyrgð á því ástandi sem nú ríkir á Íslandi. Það er mat Hreyfingarinnar að hætt sé við að alvarlegir hagsmunaárekstrar muni þvælast fyrir störfum þingmannanefndarinnar. Það er því grundvallaratriði upp á trúverðugleika starfa nefndarinnar að gera að halda t.d. þeim þingmönnum sem sátu á þingi fyrir hrun fyrir utan vinnu nefndarinnar nema óyggjandi sé að þeir hafi engin tengsl við þá atburði sem hafa gerst.

Með skipun nefndar valinkunnra manna utan þings sem hefði það hlutverk sem fram kemur í breytingartillögu Hreyfingarinnar yrði tryggt að Alþingi yrði ekki sett í þá stöðu að veita sjálfu sér aðhald, heldur fengi stofnunin sjálf og hlutaðeigandi aðilar nauðsynlegt utanaðkomandi aðhald og ábendingar. Það mundi gera starf þingmannanefndarinnar mun auðveldara.

Þegar kemur að þeim gögnum sem urðu til við vinnu rannsóknarnefndarinnar og aðgang að þeim teljum við að þeir atburðir sem hafa átt sér stað séu þess eðlis að nauðsynlegt sé að gera allt sem hægt er til að tryggja að slíkt endurtaki sig ekki og þar með meðferð gagnanna sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Hún gengur að miklu leyti út á það að takmarka verulega aðgang að öllum gögnum rannsóknarnefndarinnar sem liggja að baki skýrslunni.

Öllum breytingartillögum Hreyfingarinnar hefur hingað til verið hafnað í bæði forsætisnefnd og allsherjarnefnd. Við erum einfaldlega mjög ósátt við það því að við teljum að hér sé um þannig mál að ræða að það þurfi að skoða það betur.

Í stuttu máli er meðal formlegra breytingartillagna Hreyfingarinnar, sem atkvæði verða greidd um á eftir, að Alþingi kjósi sex þingmenn í nefnd í stað níu. Það kom fram á fundi allsherjarnefndar að þingmaður utan flokka hafði áhuga á aðkomu að málinu og þess vegna leggjum við til að það verði einn úr hverjum flokki auk þingmanns utan flokka, hv. þm. Þráins Bertelssonar. Þar með er tryggt að þetta verður ekki nefnd með einhvern pólitískan meiri hluta eða pólitískt vægi, heldur einfaldlega nefnd sem sinnir því að fara yfir þessa skýrslu og ekkert annað. Þessi nefnd á að ljúka störfum fyrir 1. maí 2010, við teljum brýnt að þessi þingmannanefnd taki til óspilltra málanna og geri helst ekkert annað en að skoða þessa skýrslu og finna út hvað á að gera við hana.

Í öðru lagi leggjum við til að kosin verði nefnd fimm valinkunnra manna utan þings sem njóta óumdeilanlegs trausts þorra almennings, eins og segir í breytingartillögunni. Sú nefnd hafi það hlutverk að fjalla um þá þætti rannsóknarnefndarinnar sem snerta alþingismenn og ráðherra, núverandi og/eða fyrrverandi, og fjölskyldur þeirra. Nefndin skal fjalla um öll atriði sem snerta Alþingi sjálft sem stofnun og koma fram í skýrslunni og þessi nefnd á að ljúka störfum fyrir 15. mars 2010. Við teljum mjög nauðsynlegt upp á trúverðugleika út á við að gera að Alþingi taki við ábendingum valinkunnra manna utan þingsins, það mundi gera alla miklu sáttari við málið.

Í þriðja lagi leggjum við til, eins og segir í breytingartillögunni, að við birtingu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis skuli öll gögn sem aflað hefur verið færð á Þjóðskjalasafn Íslands og þau gerð opinber. Tryggt verði að allar upplýsingar að baki skýrslunni sem og að baki skýrslum beggja nefnda skv. 15. gr. og 15. gr. a verði opnar öllum frá fyrsta birtingardegi. Ákvæði laga um persónuvernd skulu ekki gilda um upplýsingar þessar nema í algerum undantekningartilvikum og skulu þá rækilega rökstudd með tilliti til mikilvægustu persónuverndarsjónarmiða.

Þetta er ekki síður mikilvægt mál því að af nefndaráliti með breytingartillögum og frumvarpi nefndarinnar er augljóst að öll gögn rannsóknarnefndarinnar verða niðursoðin í tunnur á Þjóðskjalasafni og ekki aðgengileg almenningi og mjög tæplega aðgengileg fræðimönnum í 40–80 ár. Ég mun útskýra síðar hvers vegna.

Formaður allsherjarnefndar hafnaði því að frumvarpið yrði sent út til umsagnar eins og kom fram áðan, taldi ekki þörf á því. Formaður allsherjarnefndar hafnaði líka beiðni um að kallaðir yrðu gestir á fund nefndarinnar nema þeir sem hv. formaður Steinunn Valdís Óskarsdóttir valdi sjálf. Breytingartillögur Hreyfingarinnar hlutu ekki náð fyrir augum allsherjarnefndar og voru ekki ræddar efnislega.

Frú forseti. Eins og komið hefur fram erum við ósátt við framgang mála í þessu og teljum að það þurfi að leysa það með betri hætti. Hvað varðar aðgengi að gögnunum komu fyrir nefndina forstjóri Persónuverndar og þjóðskjalavörður og það kom skýrt fram í máli þjóðskjalavarðar að það sé óvinnandi vegur að gera þessi gögn ópersónugreinanleg samkvæmt persónuverndarsjónarmiðum til að aðrir megi skoða þau, það er nánast ekki hægt. Í nefndaráliti allsherjarnefndar kemur skýrt fram að þeir sem vilja rannsaka þessi gögn og skoða þau muni þurfi að bera allan kostnað af því sjálfir þannig að með þessu frumvarpi er beinlínis gert ráð fyrir því að þessi gögn verði ekki aðgengileg almenningi og ekki aðgengileg fræðimönnum um nánast ókomna framtíð, 40–80 ár.

Það er auðveld leið til að leysa þetta mál, eins og t.d. með þriðju breytingartillögu Hreyfingarinnar. Það er rétt að það komi fram að þjóðskjalavörður tæpti á því að hann teldi að lög um persónuvernd ættu ekki að gilda um þessi gögn. Það er ótrúlegt að hafa orðið vitni að því, finnst mér, hvernig þetta mikilvæga mál hefur farið eftir þessum krókaleiðum í gegnum þingið. Fáir þingmenn hafa skipt sér af því og tekið þátt í umræðum um það. Það er mjög mikilvægt fyrir Alþingi sjálft sem stofnun að komast vel frá þessu máli og það gerir það ekki með þessu frumvarpi.

Í greinargerð með breytingartillögum Hreyfingarinnar segir m.a., með leyfi forseta:

„Hreyfingin leggur áherslu á að höfð sé í huga sú umræða sem átt hefur sér stað í þjóðfélaginu varðandi hvaða aðilar það eru sem bera höfuðábyrgð á því ástandi sem nú ríkir á Íslandi. Það er mat þinghóps Hreyfingarinnar að hætt sé við að tengsl og hagsmunaárekstrar muni gera trúverðugleika þingmannanefndarinnar að engu. Til að mark verði takandi á störfum nefndarinnar er það grundvallaratriði að þingmenn ákvarði ekki það verklag er varðar aðra þingmenn sem og ráðherra í þeirri vinnu sem fram undan er.

Með kosningu nefndar fimm manna utan þings, sem njóta óumdeilanlegs trausts þorra almennings, sem hefur það hlutverk sem breytingartillögur Hreyfingarinnar gera ráð fyrir er auk þess tryggt að Alþingi verði ekki sett í þá stöðu að veita sjálfu sér aðhald heldur fái stofnunin sjálf og hlutaðeigandi aðilar nauðsynlegt utanaðkomandi aðhald.

[…]

Þeir atburðir sem hér hafa átt sér stað eru þess eðlis að nauðsynlegt er að tryggja að þeir geti ekki endurtekið sig. Því er mikilvægt að aðgangur að þeim gögnum sem til verða við vinnu rannsóknarnefndarinnar sé eins opinn og frekast sé kostur svo hægt verði að rannsaka málið til fullnustu og læra af mistökum fortíðarinnar.“

Þá er vert að hafa í huga að þingið nýtur lítils trausts meðal borgara landsins og frumvarp forsætisnefndar óbreytt verður ekki til þess að þingið auki veg sinn og virðingu meðal landsmanna. Þvert á móti verður þetta líklega til þess að breikka enn gjána milli þjóðar og þings.

„Þar sem hlutverk og skyldur þingmannanefndarinnar eru ekki nægjanlega afmörkuð er hætt við því að rannsóknarskýrslan fái ekki viðeigandi meðferð. Það kann að hafa þær afleiðingar að þeir aðilar sem bera ábyrgð í því máli sem hér er til umfjöllunar verði ekki látnir axla þá ábyrgð. Að auki eru engin tímamörk sett á vinnu þingmannanefndarinnar. Þess vegna er mikil hætta á því að störf hennar geti dregist“ allt of lengi, og þó að nú hafi verið sett undir lekann um fyrningarfrestinn sem var beinlínis æpandi í þessu frumvarpi tel ég að starf þingmannanefndarinnar geti dregist allt of lengi.

„Þinghópur Hreyfingarinnar telur að það verði að loka fyrir alla möguleika á að Alþingi tefji að taka afstöðu til rannsóknarskýrslunnar eða að skýrslunni verði sópað undir teppið. Ekki fæst séð að framlagt frumvarp uppfylli þau skilyrði.“

Þó að formaður allsherjarnefndar hafi tekið mjög snöfurmannlega á þessu með fyrningarmálið og það hafi verið afgreitt vel í nefndinni eru samt enn þá mörg óljós atriði hvað það varðar og það sýnir sig að í nefndarálitinu skrifa tveir fulltrúar í nefndinni undir það með fyrirvara. Þetta er nokkuð sem er of óljóst og þyrfti að hnykkja betur á.

Við munum leggja fram þessar breytingartillögur hér á eftir þegar atkvæði verða greidd um frumvarpið. Við teljum einfaldlega mjög nauðsynlegt að allir þingmenn skoði þær vandlega því að þær munu leiða til þess að starf þessarar nefndar verði miklu farsælla og starf Alþingis og orðspor Alþingis miklu betra hvað varðar meðferð þessarar mikilvægu rannsóknarskýrslu en frumvarp forsætisnefndar gerir ráð fyrir.

Ég lýk hér máli mínu um þetta frumvarp. Þetta er mjög mikilvægt mál og ég vil enn einu sinni ítreka að þingmenn velti þessu alvarlega fyrir sér.