138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:06]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það eru þrjú efnisleg atriði sem ég vil gera að umtalsefni í andsvari við hv. þingmann. Ég vil í fyrsta lagi taka fram að það er að sjálfsögðu ekki gert ráð fyrir því að þingmannanefndin komi ein og óstudd að þessari vinnu, hún kallar til sín sérfræðinga úti í bæ þannig að það að halda því fram að engir sérfræðingar komi að vinnu nefndarinnar er af og frá.

Í öðru lagi vil ég koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi um frestinn, þann tíma sem þingmannanefndin á að fá til að vinna málið. Samkvæmt starfsáætlun þingsins, sem liggur fyrir núna og er ekki búið að breyta þó að það kunni að verða síðar, er gert ráð fyrir því að þing fari í sumarfrí í lok maí og komi síðan aftur saman í september. Í breytingartillögunni sem liggur fyrir núna er eingöngu talað um að gert sé ráð fyrir því að þingmannanefndin ljúki störfum á þessu löggjafarþingi. Það getur að sjálfsögðu verið í maí og það er auðvitað mikil rangtúlkun að halda því fram að hér með sé búið að gefa þingmannanefndinni átta mánuði til að skila af sér. Að sjálfsögðu vonumst við til þess að hún skili af sér eins fljótt og hægt er.

Í þriðja lagi vil ég nefna það sem hv. þingmaður sagði um vistun skjalanna, auðvitað er búið að koma til móts við athugasemdir bæði Persónuverndar og þjóðskjalavarðar varðandi þetta en það er rétt að taka fram að þarna er verið að keyra inn gríðarlega gagnagrunna með alls kyns upplýsingum, persónulegum upplýsingum um einkalíf og einkahagi fólks. Það er að sjálfsögðu ekki rétt að hver sem er eigi að geta gengið í þá gagnagrunna. Það er hins vegar alveg tryggt að fólk á að geta haft aðgang að ópersónugreinanlegum upplýsingum í þessum gagnagrunnum sem að gagni geta komið ef menn eru sagnfræðingar eða stjórnmálafræðingar, að skoða eitthvað eða rannsaka þannig að gagnagrunnarnir sem slíkir og niðurstöður gagnagrunnanna verður að sjálfsögðu opið öllum.