138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:12]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Þór Saari nefndi í upphafsorðum sínum að Hreyfingin hefði ekki fengið stuðning við þær breytingartillögur og málflutning sem hún hefði haft uppi í þessu máli. Það er alveg rétt.

Alþingi Íslendinga hefur ekki stundað það mjög í gegnum árin að vera með virkt eftirlit með framkvæmdarvaldinu eða sinnt því eftirlitshlutverki sem því ber. Við viljum gera bragarbót á, við fengum harðan skell og áminningu um að eftirlit Alþingis þurfi og eigi að vera meira en verið hefur.

Við leituðum í brunna Norðurlandaþjóðanna sem hafa miklu meiri reynslu en við á þessu sviði og leituðum í löggjöf þeirra hvað varðar eftirlitsskyldu og eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Í framhaldi af því var samið þetta frumvarp sem forsætisnefnd flytur. Ég tel að forsætisnefnd og allsherjarnefnd hafi í öllu reynt að vanda til verka. Alþingi ætlar og við ætlum að standa undir þeirri ábyrgð sem enginn nema Alþingi sjálft getur gert til að taka á þeim málum sem okkur ber að taka á. Þeim er ekki hægt að vísa til manna úti í bæ, það er ekki hægt að vísa til sérfræðinga úti í bæ. Það er hægt að leita til sérfræðinga úti í bæ og það mun hún gera, þessi nefnd sem Alþingi mun skipa.

Hvert á að senda þetta mál til umsagnar? Það var leitað til sérfræðinga á þessu sviði og þeir kallaðir fyrir nefndina. Þannig voru umsagnirnar fengnar. Það var farið vel yfir þetta mál. Ég tel að þeim rökum sem hafa birst í breytingartillögum og málflutningi Hreyfingarinnar og hv. þingmanns hafi verið hnekkt með gagnrökum (Forseti hringir.) og málflutningi þeirra sem standa að þessum tillögum og flutningi hér á Alþingi.