138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:14]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Þeim rökum hefur ekki verið hnekkt. Því var hafnað að fá gesti á fund allsherjarnefndar með formsatriði, því formsatriði að formaður allsherjarnefndar þurfi ekki að taka tillit til óska áheyrnarfulltrúa um gesti á fund nefndarinnar. Það var ekki rökstutt með neinum öðrum hætti en þeim að henni bæri ekki skylda til þess. Full heimild er til þess en þar var enginn áhugi á því að fá utanaðkomandi álit. Það er ekki utanaðkomandi álit að fá álit lögfræðings Alþingis á frumvarpinu.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Þuríðar Backman er þetta fyrsta skref af mörgum í því að auka eftirlitshlutverk Alþingis. Það er vel. Ég tel að það sé gríðarlega mikilvægt, og mikilvægt starf hefur verið unnið í þeim málum með skýrslunni sem var lögð fyrir forsætisnefnd í sumar úti í Viðey. En þar sem þetta er einmitt fyrsta skrefið tel ég mikilvægt að það sé gert mjög vel. Ég hef aldrei lagt til að þingið taki við einhverjum skipunum frá mönnum úti í bæ eins og skýrt kemur fram hér. Þó að hv. þm. Þuríður Backman kjósi að afvegaleiða þá umræðu kemur það skýrt fram að utanaðkomandi nefnd mundi veita þingmannanefndinni ábendingar sem utanaðkomandi aðili. Það er ekki verið að vísa neinum málum til einhverra aðila úti í bæ varðandi þetta mál, það er einfaldlega alrangt og það er dapurlegt að fólk skuli reyna að rökstyðja mál sitt með þessum hætti.

Það eru margar nefndir úti um allan bæ sem veita þinginu ábendingar á hverju einasta ári. Það væri ekkert óeðlilegt að það væri gert í þessu máli líka.