138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:16]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að eingöngu Alþingi sjálft geti haldið uppi virðingu Alþingis og staðið undir þeim verkefnum sem því ber. Það er ekki hægt að vísa þeirri ábyrgð eitthvað annað frekar en í mörgum öðrum málum.

Hvað varðar þá nefnd sem hér er lagt til að verði skipuð, níu manna þingmannanefnd, er einmitt farið út fyrir þá reglu sem gildir um hefðbundnar þingmannanefndir, það er ekki farið eftir hinu pólitíska vægi á þinginu, það er ekki farið eftir svokallaðri d'Hondt-reglu. Það er einmitt verið að skapa þann grunn að þessi nefnd endurspegli ekki stjórnarmeirihlutann á þingi af því að henni er ætlað að fara upp fyrir þau pólitísku hlutföll sem núna eru á þinginu. Henni er ætlað að starfa fyrir Alþingi allt, fyrir Íslendinga alla og koma sér upp úr (Forseti hringir.) pólitískum hjólförum og vinna það mikla og ábyrgðarmikla verk sem henni er ætlað með þessu frumvarpi. Ég treysti henni og það getur enginn annar (Forseti hringir.) en Alþingi sjálft staðið undir þessari ábyrgð.