138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:18]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það mun rétt vera, það getur enginn annar en Alþingi sjálft formlega staðið undir þeirri ábyrgð að taka á þessari skýrslu og skipa þessa nefnd. Það er ekki þar með sagt að það þurfi endilega að vera níu manna þingnefnd sem starfar eftir hefðbundnum þingsköpum Alþingis. Þetta er ekkert hefðbundið mál, þetta er fordæmalaust mál og það er ekki einu sinni nægilegt að vísa til fordæma á Norðurlöndum því að slík fordæmi eru alls ekki til. Það hefur oft verið talað um Tamílamálið í Danmörku sem fordæmi. Það er allt annars eðlis og miklu minna, það er smámál í samanburði við þetta mál, þannig að hér er um algjörlega fordæmalausar aðstæður að ræða.

Ég hefði kosið að það hefði bara verið formgert af alvöru og með formlegum hætti hvernig þessi þingmannanefnd fengi ábendingar utan þingsins í störfum sínum frekar en að hún muni eftir eigin geðþótta kalla eftir sérfræðiáliti.