138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:19]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Maður er að reyna að átta sig á því hvað Hreyfingunni gengur eiginlega til með þessum málflutningi. Hér segir hv. þingmaður réttilega að einungis þingið sjálft geti tekið á niðurstöðu rannsóknarskýrslunnar, það er bara þingið sjálft sem getur sent einhvern fyrir Landsdóm, það er bara þingið sjálft sem getur breytt lögum. Við höfum sameinast hér um að þetta verði níu manna þingmannanefnd en Hreyfingin vill að þetta séu sex þingmenn. Hver er munurinn á því? Það er enginn grundvallarmunur á því.

Miðað við þennan málflutning sem hér hefur farið fram og þær tillögur sem Hreyfingin leggur til virðist sem Hreyfingin neiti að horfast í augu við það að hér hefur verið að störfum rannsóknarnefnd manna úti í bæ. Það er sú skýrsla sem við fáum hérna inn. Hreyfingin vill að við veljum fimm valinkunna menn úti í bæ til að gera nákvæmlega það sama og rannsóknarnefndin er að gera. Það er hægt að sjá í breytingartillögum Hreyfingarinnar þannig að Hreyfingin vill spila þetta allt til baka, fara að gera aftur það sem rannsóknarnefndin er að gera.

Nefnd valinkunnra manna úti í bæ er að vinna það sem Hreyfingin er að kalla eftir. Af hverju vill Hreyfingin ekki horfast í augu við það? Það starf hefur farið fram um langt skeið og ríkir frekar mikið traust um það, sem er mjög gott. Hreyfingin gerir ekkert úr þessu, nei, nei, það á bara að vera ný nefnd, fimm valinkunnir menn að gera það sama og rannsóknarnefndin er að gera. Svo á sex manna þingmannanefnd að taka við málinu 15. mars. Þann 15. mars á fimm manna nefndin hjá Hreyfingunni að skila. Við erum þó að fá frá rannsóknarnefndinni skýrslu í lok janúar þannig að við erum á undan Hreyfingunni, við sem höfum áttað okkur á því hvað við erum að gera hérna.

Ég mótmæli því hvernig hér er talað niður til þingsins og þingmanna. (VigH: Rétt.) Hér gefur Hreyfingin bara þingmönnum puttann (VigH: Já.) og ég neita að sitja undir því. Ég ætla að fara í ræðu á eftir til að fara betur yfir tillögur (Forseti hringir.) Hreyfingarinnar af því að það verður ekki setið lengur undir þessum áróðri sem hér kemur fram. (Gripið fram í.)