138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:23]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Hv. þingmaður segir að þingið ætli að rannsaka sjálft sig. Það er ekki rétt, hv. þingmaður veit betur. Það er rannsóknarnefnd sem er núna að rannsaka þetta mál á nákvæmlega sama hátt og Hreyfingin sjálf leggur til að fimm manna nefndin eigi að gera. Þetta starf er í gangi. Það er verið að rannsaka aðdragandann og orsakir bankahrunsins, það er verið að því. Þingið fær síðan skýrsluna þannig að þingið er ekki að rannsaka sig sjálft. Það eru menn úti í bæ að gera það samkvæmt lögum.

Það er svo sannarlega verið að tala niður til þingmanna hér. Í fyrri ræðum sínum um daginn þegar við ræddum þessi mál sagði hv. þingmaður að þetta mál væri eitthvert samtryggingarkerfi þingmanna um að sópa síðan öllu undir teppið sem kæmi frá rannsóknarnefndinni. Þetta er alrangt, maður situr ekki undir svona. Núna áðan var sagt að þessi nefnd, þingmannanefndin, ætti að skila einhverri froðu um verslunarmannahelgina. (Forseti hringir.) Hvernig dirfist hv. þingmaður að tala svona hér?

Hér erum við að vanda til verka og ná samstöðu um mikilvægt mál (Forseti hringir.) og þá kýs Hreyfingin að grafa undan öllu trausti sem við erum að reyna að byggja upp, og ég mótmæli því.