138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:37]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að hv. þingmaður eða Hreyfingin hafa borið hér fram breytingartillögu. Það er líka rétt að hér fara daglega fram umræður þar sem fólk skiptist á skoðunum og er ekki alltaf á sömu skoðun, það er eðlilegt, enda erum við til þess hér að skiptast á skoðunum.

Í málflutningi hv. Hreyfingarinnar kemur fram að ef þeirra breytingartillögur eru ekki samþykktar er það vegna þess að þau eru þau einu sem vilja koma hreint og beint fram, þau eru þau einu sem vita hvernig á að endurreisa virðingu Alþingis og við hin vitum ekkert um það. Við hin erum að sópa einhverju undir teppi, við hin erum óheiðarleg. Það er málflutningurinn sem ég geri athugasemdir við.

Ef hv. þingmaður vill kalla það að fara á límingunum skal ég fara á límingunum á hverjum degi fyrir hann.