138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:51]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég hefði kosið eins og áður að ræða hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur hefði verið á málefnalegum nótum. Hún fór hér yfir víðan völl í þessu máli og benti á að allt í breytingartillögum Hreyfingarinnar væri í frumvarpinu. Það sér það hver læs maður að svo er ekki. Ég átta mig ekki á því hvers vegna hv. þingmaður hefur uppi þennan málflutning.

Það er mjög óskýrt hvað þessi þingmannanefnd á að gera og þetta var tilraun til að bæta úr því. Nánast ekkert af því sem hv. þingmaður sagði hér uppi í ræðupúlti er rétt, það er mestallt alrangt. Ég hef t.d. aldrei staðið hér og sakað þingmenn um óheiðarleika, ég hef aldrei gert það. Þegar ég hef talað um að fólk sem ég hef ráðfært mig við úti í bæ hafi látið þau orð falla að þessi þingmannanefnd muni skila af sér froðu um verslunarmannahelgina er það bara einfaldlega það sem ég hef heyrt og ég kem því hér á framfæri við þingheim. Það getur vel verið að þingmenn kjósi sem svo að einangra sig frá umheiminum, að þeir vilji ekkert vita um það sem fer fram utan þingsalarins, en þeir þá um það. Ég mun hins vegar halda áfram að koma hingað með þau viðbrögð sem ég heyri úti í bæ við því sem þingið er að gera, það er einfaldlega skylda mín sem þingmanns.

Það hefur margt gengið á hér í íslensku samfélagi og þingið nýtur ekki trausts. Þingmenn Hreyfingarinnar setja sig ekki á háan hest þegar þau segja að þau hafi ekki verið á þingi fyrr en í vor. Það er einfaldlega staðreynd að þingmenn Hreyfingarinnar voru ekki á þingi og bera ekki ábyrgð á þeirri löggjöf sem leiddi til hrunsins. Það er ekki orðræðan á þinginu sem níðir niður virðingu þingsins, (Gripið fram í.) það er sú löggjöf sem þingið sendir frá sér sem er það ónýt að íslenskt samfélag og efnahagslíf hrundu (Forseti hringir.) nánast til grunna. Það er þess vegna sem þingið nýtur ekki virðingar, það er ekki vegna þess að Hreyfingin gagnrýni störf þingsins.