138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:58]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég fór yfir það hér í ræðu minni hvað þessi fimm manna nefnd sem Hreyfingin vill setja upp úti í bæ átti að gera samkvæmt liðum a, b og c. Ég hef ekki tíma til þess að lesa það aftur í stuttu andsvari. Það er það nákvæmlega sama og rannsóknarnefndin er að gera. (ÞSa: Það er ekki rétt.)

Síðan segir hv. þingmaður hér, og reynir reyndar aðeins að bakka, ég verð nú að meta það einhvers, að það sé ekki verið að rýra trúverðugleika þingsins og það hafi ekki verið sagt að það ætti að sópa undir teppið en það muni hugsanlega gerast.

Þá ætla ég að fá að lesa, virðulegur forseti, upp úr greinargerð Hreyfingarinnar eða hv. þm. Þórs Saaris með breytingartillögum Hreyfingarinnar. Þetta eru síðustu línurnar í greinargerðinni þannig að þær eru auðfundnar.

Svona hljómar þetta, virðulegur forseti:

„Þinghópur Hreyfingarinnar telur að það verði að loka fyrir alla möguleika á að Alþingi tefji að taka afstöðu til rannsóknarskýrslunnar eða að skýrslunni verði sópað undir teppið. Ekki fæst séð að framlagt frumvarp uppfylli þau skilyrði.“

Þarf að segja eitthvað meira, virðulegur forseti? Það er alveg greinilegt að Hreyfingin vill viðhalda vantrausti á þinginu, hún vill ekki ná neinni samstöðu um þetta mál, talar sig frá því eins og hægt er, kemur með einhverjar breytingartillögur sem eiga í þykjustunni að vera til þess að bæta málið en eru í reynd nákvæmlega það sem verið er að gera. Það eru engar fréttir í því, virðulegur forseti.

Vonandi snýst Hreyfingunni hugur (Forseti hringir.) og vinnur af alefli í níu manna þingmannanefndinni að því að skapa traust og komast að réttlátri niðurstöðu varðandi það sem gerðist hér.