138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[11:07]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. þm. Steinunni Valdísi Óskarsdóttur að það er óskandi að framhald þessa máls verði með þeim hætti að þingið hafi sóma af. Ég frábið mér hins vegar allan þann málflutning sem uppi hefur verið hafður af hálfu sumra sem styðja þetta frumvarp og leggja mér orð í munn um að ég hafi kallað þingmenn alls konar nöfnum og þess háttar. Ég átta mig ekki á því hvers vegna fólk talar með þeim hætti, það er einfaldlega bara ósatt og þetta er óheiðarlegur málflutningur. (Gripið fram í.)

Ég hef lýst eftir málefnalegri umræðu. Hún hefur að einhverju leyti farið fram en þó að mjög litlu leyti. Það er málefnalegur málflutningur að kalla eftir sjónarmiðum utan úr bæ inn í allsherjarnefnd og það var ekki gert, því var hafnað. Því var ekki hafnað með málefnalegum rökum, því var hafnað með því formsatriði að formanni nefndarinnar beri ekki skylda að verða við óskum áheyrnarfulltrúa nefndarinnar. Það er ekkert sem segir að hún þurfi að gera það. Það er þess konar málflutningur sem ég mótmæli. Ég held að það hefði verið hægt að vinna þetta mál betur og ég vona svo sannarlega að þessi níu manna þingmannanefnd muni vinna málið vel. Hreyfingin mun að sjálfsögðu taka þátt í því starfi af fullum krafti og líka af fullum heilindum.

Það verður áhugavert að sjá hvernig þingið kemst frá þessu máli. Þetta er mjög áríðandi og það er mjög mikilvægt að það takist vel til. Ég vona svo sannarlega að málflutningur minn hér í dag og undanfarna daga í þessu máli hafi ýtt nægilega vel við þingmönnum til þess að þeir átti sig á því hversu mikilvægt þetta er því að ég er ekki viss um að þingmenn hafi gert sér grein fyrir því almennilega, því miður. Vonandi rætist úr hvað það varðar.