138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[11:11]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Að fá gesti utan úr bæ á fundi þingnefnda er bara góður siður og það er alvanalegt að það sé gert. Í þessu tiltekna máli var óskað eftir að það kæmu gestir á fund allsherjarnefndar sem hafa einmitt á undanförnu ári haft uppi efasemdir um Alþingi og hæfi þess til að starfa. Þar á meðal eru virtir lögfræðingar, fjölmiðlamenn, formaður Blaðamannafélags Íslands og fleiri. Þetta er tilraun til þess að fá utanaðkomandi álit á lagasetningu Alþingis í einhverju mikilvægasta máli sem Alþingi hefur tekist á við.

Mér finnst alveg ótrúlegt að það skuli ekki hafa verið gert. Ég tel að það sé bráðnauðsynlegt að Alþingi leiti í meira mæli úr fyrir veggi þinghússins til þess að fá álit á málum. Við höfum lagt fram frumvörp m.a. um þjóðaratkvæðagreiðslur í þeim tilgangi vegna þess að við teljum bráðnauðsynlegt að almenningur og fólk úti í bæ fái að koma meira að álitamálum á þingi en verið hefur hingað til. Að kalla ekki fólk á fund allsherjarnefndar, sem hefur hugsanlega gagnrýnið viðhorf til lagasetningar finnst mér einfaldlega ekki vera rétt leið eða málefnaleg.

Tillögum Hreyfingarinnar var hafnað í allsherjarnefnd og því að það kæmu fyrir gestir á fund nefndarinnar. Ég er einfaldlega mjög ósáttur við það og ég held að það hafi verið mistök. Það er svo spurning hvað verður um þetta mál þegar þingmannanefndin verður sett á stofn og með hvaða hætti hún starfar. Ég tel að hún eigi að starfa fyrir opnum tjöldum alfarið og að jafnvel eigi að útvarpa fundum hennar til þess að allt sé á hreinu með störfin, en það verður þá bara að koma í ljós hvernig það verður.