138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[11:13]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get í sjálfu sér alveg verið sammála hv. þingmanni um að það er mjög mikilvægt þegar verið er að undirbúa vandaða lagasetningu að kallaðir séu sérfræðingar fyrir fundi Alþingis enda er það oftast nær gert, það er almenna vinnureglan. Formenn fastanefnda kalla oft eftir tilnefningum frá fulltrúum í nefndum og fara yfir þá lista og reyna að verða við þeim óskum eins og framast er unnt.

Ég verð hins vegar að segja að þegar hv. þm. Þór Saari lagði fyrir mig sem formann nefndarinnar lista sem innihélt nöfn 14 einstaklinga var vandi að sjá af hverju hefði átt að kalla þá fyrir nefndina frekar en einhverja aðra. Á þessum lista voru m.a. einstaklingar sem hafa lýst svipuðum hugmyndum og hv. þm. Þór Saari um hlutverk rannsóknarnefndarinnar og þingmannanefndarinnar. Og ef út í það hefði verið farið hefðu svo sem allir nefndarmenn getað komið með álíka langan lista einstaklinga til þess að styðja við sinn málflutning. Ég taldi hins vegar, og það var alger samstaða um það innan nefndarinnar, að öll sjónarmið væru komin fram. Þetta væri fyrst og fremst spurning um lagatúlkun og m.a. þess vegna leituðum við til Bjargar Thorarensen prófessors til að fara yfir málið með okkur. Við fengum ráðgjöf símleiðis og ég var í sambandi við lögfræðinga yfir jóladagana til þess að ganga frá þessu máli.

Ég tel því þvert á móti að menn hafi vandað sig og reynt að gera þetta eins vel og þeim framast var unnt. Ég get svo sem fallist á að það er sjálfsagt og eðlilegt að kalla fyrir gesti á nefndarfundi enda er það í flestum tilfellum gert.