138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[11:19]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Þessi breytingartillaga frá hv. þm. Þór Saari gengur út á að Alþingi eigi að kjósa sex þingmenn í nefnd sem fjalli síðan um skýrslu sem rannsóknarnefndin skilar brátt af sér. Í frumvarpinu er kveðið á um níu þingmenn í sömu nefnd. Það er alveg ljóst að þessi þingmannanefnd, miðað við tillögur Hreyfingarinnar, á að gera nákvæmlega það sama og tillagan gengur út á að níu manna þingmannanefndin geri, sem aðrir flokkar hafa lagt til að verði sett á fót. Hún á líka að gera ákveðna hluti sem rannsóknarnefndin hefur nú þegar verið að vinna að þannig að þessi tillaga er að mínu mati algjörlega fráleit og ég segi því nei.