138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[11:21]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka veitta aðstoð. Ég vildi bara nefna vegna þeirrar breytingartillögu sem hér liggur fyrir að hún var nokkuð til umræðu eftir 2. umr. málsins í allsherjarnefnd. Það var í sjálfu sér efnisleg samstaða um að rétt væri að finna leið til þess að rjúfa fyrningarfrest vegna hugsanlegra brota á ráðherraábyrgð. Ég skrifaði hins vegar undir nefndarálitið og þessa breytingartillögu með fyrirvara vegna þess að ég taldi að það væru ákveðnar hættur á því að sú leið sem hér er farin mundi ekki halda fyrir dómstólum. Ég vildi bara koma þessu sjónarmiði hér á framfæri til að skýra hvers vegna ég gerði þennan fyrirvara en ég tek það hins vegar fram að innan nefndarinnar var enginn efnislegur ágreiningur um markmiðin, það var spurning um útfærslu.