138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[11:27]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Hér er um gríðarlega stórt og mikilvægt mál að ræða og í raun og veru er hægt að fullyrða að þetta sé nokkurs konar prófsteinn á styrk Alþingis til að taka við þessu stóra og erfiða verkefni. Ég vil í lok þessarar atkvæðagreiðslu nota tækifærið og heita á þá þingmenn Hreyfingarinnar sem ekki greiða atkvæði með þessu frumvarpi en munu þó taka sæti í þessari þingmannanefnd, að vinna af heiðarleika og dugnaði þar. Ég vonast til þess að menn muni ganga í takti og að við munum ekki þurfa í aðdraganda vinnu þessarar eða á meðan henni stendur að fara í gegnum umræður um vantraust eða ásakanir um að menn ætli hér að fremja einhver myrkraverk eða að sópa einhverju undir teppið. (Forseti hringir.) Ég tel að það sé full samstaða um það meðal allra að vanda vel til verka og ég heiti á Hreyfinguna að koma með okkur í það verk.